Sigurður Hannesson, Eldvatn
Sigurður Hannesson með nýgenginn birting úr Eldvatni um helgina. Myndin er af FB síðu Eldvatns.

Svo virðist sem að mikið og gott sjóbirtingshaust sé í vændum, ef marka má „könnunarleiðangur“ veiðihóps í Eldvatn í Meðallandi um helgina. Óhætt er að segja að vel hafi veiðst og raunar er all nokkuð síðan að menn fóru að sjá og setja í fyrstu birtingana í héraðinu.

Hópurinn sem kannaði Eldvatn stóð vaktina í tvo daga og var 31 sjóbirtingi landað og einum laxi að auki. Að sögn Jóns Hrafns Karlssonar, eins af leigutökum árinnar var mikið af aflanum nýgenginn fiskur, margir með lús. Þá var fiskur dreifður um allt þó svo að Hvannakelda og Feðgar hafi verið líflegustu staðirnir. Þar var fiskur talsvert á lofti að sögn Jóns Hrafns. „Þetta lítur sem sagt afar vel út,“ sagði Jón Hrafn að auki.