Fossá, Hjálparfoss, veiðiþjófar
Veiðiþjófar neðan við Hjálparfoss í Þjórsárdal fyrir skemmstu.

Eins og vanalega ber nokkuð á veiðiþjófum og veiðiþjófnaði. Hinir seku eru gómaðir af og til en eflaust er mun meira um svona lagað heldur en margan grunar, og fer vaxandi þegar líður á og myrkur hylur misgjörðirnar.

Nú fyrir skemmstu lét Guðmundur Atli Ásgeirsson leigutaki Fossár í Þjórsárdal vita af veiðiþjófnaði í ánni, sem er í raun alveg makalaust þar sem atvikið átti sér stað neðan við Hjálparfoss þar sem stangaveiðimenn með veiðileyfi standa einmitt vaktina, auk hundruða túrista sem koma í heilum rútuförmum. En þarna voru á ferð einstaklingar, nokkrir saman sem köstuðu spúnum í gríð og erg(sjá mynd sem GAÁ sendi VoV). Það er ekki nóg með að viðkomandi hafi verið í óleyfi heldur er einungis leyfð fluguveiði í ánni og öllum laxi skal sleppt.

Fregn þessi kemur í framhaldi af því að veiðivörður við Norðurá kom ásamt lögreglu að frönskum manni sem að var að kasta spæni við laxastigann í Glanna í Norðurá. Sá tapaði allri enskukunnáttu þegar honum varð ljóst að um lögreglumál væri að ræða. Þá voru menn teknir við Laxá í Leirársveit fyrr í sumar að ógleymdri hinni dæmalausu uppákomu þegar forstjóri og endurskoðandi úr Reykjavík voru teknir við maðkveiðar í óleyfi í Efra Rauðabergi í Kjarrá. Báru þeir því við að veiðileyfi í ánni væru svo dýr. Umræddir herramenn voru auk þess á veiðum á miðri vakt, þar sem búast mátti við veiðimönnum með leyfi á hverri stundu.

Margir halda því fram að veiðiþjófnaður sé útbreiddari heldur en margan grunar. Friðbjörn Hauksson, formaður Veiðifélags Vesturdalsár í Vopnafirði, sagði í samtali við VoV fyrir skömmu, að sem refaskytta héraðsins ætti hann oft erindi inn á afrétti og furðu oft kæmi hann að einstaklingum sem lægju í tjöldum á afviknum stöðum nærri ánum, Vesturdalsá og Selá, „þeirra erindi getur ekki verið annað en veiðiskapur,“ sagði Friðbjörn og sagðist að auki hafa heyrt margvíslegar sögur víðar að, þar sem veiðiþjófnaður hefði átt sér stað, eða að sterkur grunur hafi verið uppi um slíkt.

Í þessu sambandi mætti lauma með lítilli sögu sem ritstjóri lúrir á, en fyrir all nokkrum árum heyrði hann kunningja sinn guma að því að stunda veiðiþjófnað á haustin í Hólmsá. Hann gerði svo í samvinnu við einhverja kunningja sína og tiltók hann sérstaklega hyl nokkurn ofan við Suðurlandsveg, nálægt Gunnarshólma. Svo hló hann digurbarkalega þegar hann sagði frá nýjustu veiðiferðinni, en þeir fóru jafnan einu sinni á haustin með net. Í svarta myrkri. Í þetta sinn ræddu þeir saman í myrkrinu til að skipulagið væri í lagi, en þarna þekktu þeir hverja þúfu eftir að hafa stundað iðjuna um árabil. En skyndilega var ekki allt sem sýndist eða heyrðist. Menn voru að tala saman, en fljótlega áttuðu þeir sig á því að fleiri voru þarna á ferðinni. Annar hópur veiðiþjófa hafði valið sama síðkvöld til veiðitúrsins og þeir sjálfir! Úr varð samvinna þar sem aflanum var skipt í fleiri hluta en venja bar til….