Jæja, þá er það byrjað. Fyrsti öruggi eldislax sumarsins veiddist nú í vikunni í Botnsá í Hvalfirði. Haldi einhver að það þurfi nánari rannsókn á viðkomandi laxi til að staðfesta að um eldislax sé að ræða, skoði myndirnar! 

Þessi fiskur veiddist þann 12.júlí í Botnsá. Lax þessi verður ugglaust sendur til rannsóknar og mögulega fást einhvern tíman niðurstöður um það hvaðan laxinn er kominn. Á sama tíma og það þarf engum að koma á óvart að eldislax veiðist í laxveiðiá, þá er staðsetningin athyglisverð. Mikið er um það talað að einu árnar sem eru í hættu séu þær sem eru í mesta námundanum við eldið, en það er ansi langt á milli Hvalfjarðar og Patreksfjarðar, sem er næsta sjókvíaeldi sem í boði er….nú svo er hann kannski ættaður úr Djúpinu. Hver veit? En það hefur löngum verið bent á að sporður á löxum gegnir vissu hlutverki og það er að koma sér frá einum stað til annars.