Kristján Páll með ofboðslega bleikju úr Norðlingafljóti.

Veiðileyfasalarnir hjá Fish Partner hafa verið duglegir að finna silungsveiðiparadísir í óbyggðum og má t.d. nefna Köldukvísl, Tungná, efri hluta Tungufljóts og fleiri svæði. Það nýjasta er Norðlingafljót sem liðast nánast gervalla Arnarvatnsheiði. Afar vænn fiskur er í Fljótinu, bæði urriði og bleikja.

Veiðileg breiða í Norðlingafljóti.

Norðlingafljót á upptök sín í Fljótsdrögum sem eru nærri norðurmörkum Eiríksjökuls. Áin er oftast tær, en við vissar aðstæður getur komið dálítill jökullitur á ána. Fjölbreytt er hún frá sjónarhóli veiðimanna, fossar, flúðir, strengir og breiður til skiptis. Það er drjúgt af fiski í ánni og gæðin mikil því fiskurinn er afar vænn, stærstu bleikjur sem hafa veiðst nýverið voru allt að 8 pund og menn telja að þær séu til allt upp í 10 pund. Flestar 2 til 5 pund.  Urriðinn er einnig rígvænn, allt að 7-8 pund.

Einn flottur, Eiríksjökull í baksýn.

Veiðisvæðið er mjög langt og nær frá Bjarnafossi sem er í Hallmundarhrauni og allar götur upp í Fljótsdrög. Víða er hægt að skrönglast á jeppa með ánni, en er ofar dregur á svæðið þarf að ganga og þeir sem eru duglegastir á því sviði uppskera gjarnan ríkulega.

Glæsilegur Fljótsurriði.

Ritstjóri VoV veiddi á þessum slóðum í næstum tvo áratugi og reynslan ógleymanleg. Á þeim árum vissu fáir af þessari Paradís. Slagsmál við boltafiska var daglegt brauð. Dæmi er þegar komið var í fyrsta skipti að fallegum hyl skammt neðan við ós Reykár (sem fellur úr Reykjavatni), þá var þremur bleikjum landað, tvær 5 punda og ein 3 punda. Það gaf tóninn. Bleikjan í Fljótinu er mjög dökk og telja margir að uppruni hennar sé í Reykjavatni þar sem bleikjan er einmitt mjög áþekk. Bleikjan í Fljótinu velur sér helst hægara vatn, urriðinn frekar fossa og strengi þó að frávik séu auðvitað frá þessu.

Fish Partner hefur sett þær reglur að aðeins megi veiða á flugu og öllum fiski skal sleppt. Það er rökrétt í á sem þessari, þegar fiskur er jafn vænn og raun ber vitni þá er oft hægt að ganga á stofna með drápi.