Bjarni Jónsson fiskifræðingur er hér með 107 cm hrygnu sem veiddist í Víðidalsá í sumar og fór hún í kistu og síðan kreistingu. Mynd Höskuldur Birkir.

Yfirreiðin heldur áfram, næst er það Víðidalsá. Þetta verður handahófskennt hjá okkur m.t.t. landshluta og birtum við þetta bara jafn harðan og við teljum okkur hafa fengið allar þær upplýsingar sem tiltækar eru með tiltölulega litlum fyrirvara. Við erum svo heppnir að Ragnar Gunnlaugsson kenndur við Bakka í Víðidal leggst jafnan í veiðibækurnar og vinnur uppúr þeim skemmtilega tölfræði.

107 cm, skemmtileg mynd Höskuldar Birkis Erlingssonar sýnir svo ekki verður um villst með stærðina.

Ragnar skrifar til okkar: „Sendi ykkur að venju það sem ég vann úr veiðibókunum frá sumrinu.Veiðin var skárri en 2019 munar þar mestu að Fitjáin nær tvöfaldaði veiðina frá fyrra ári.  Mikil breyting er á silungsveiðinni frá því sem áður var, bleikjan er í mikilli lægð og áhyggjuefni að það er nær eingöngu mjög væn bleikja sem veiðist 40-60 sm. Urriða/sjóbirtingi hefur aftur á móti fjölgað mikið síðustu ár mikið af vænum sjóbirting sem veiðist. Manni er farið að lengja eftir góðu veiðisumri öll sú friðun sem hefur verið nú um árabil virðist sein að skila sér,veiða-sleppa og eingöngu fluguveiði.“

Svo mörg voru orð Ragnars, en rýnum aðeins í tölurnar frá sumrinu. Víðidalsá og Fitjá skiluðu samtals 557 löxum, aðaláin 403 og hliðaráin 154 löxum. Júlímánaður var bestur með 206 laxa, ágúst gaf 184 laxa, september 125 laxa og júní rak lestina með 42 stykki.

Besti veiðistaðurinn er eins og stundum áður Harðeyrarstrengur með 69 laxa og Dalsárós með 35 alxa. Gapastokkur var með 25, Þorri 22 og Kælir og Ármót með 18 stk hvor. Alls gera þetta 157 laxa af 403 löxum Víðidalsár. Í Fitjá var Laxapollur hæstur með 42 laxa, Tjarnarfljót með 29 laxa, Bugur  með 18 og Valdarásbrú 16 laxa, sem gera 105 af 154 löxum Fitjár.

Meðalþungi í sumar var 4 kg miðað við 4,4 kg í fyrra, en hæsta meðaltalið síðustu ár var 2017 með 4,7 kg. Hlutfall slepptra laxa í ár var 82% á móti 87% í fyrra.

Einn af mörgum stórum úr Víðidalsá í sumar, Nils Folmer með enn einn á skrá sína. Þessi var 100 cm.

Það voru stórir fiskar í ánni s.l. sumar og alls veiddust 8 laxar á bilinu 100 til 107 cm sem Ragnar reiknar samkvæmt lengd 10 til 12,1 kg. Þegar hann telur frá 78 cm upp í 104 cm, áætlar þá 5 til 11,2 kg eru þar á ferð 127 laxar. Laxar inann við 2 kg voru 12 talsins.

Laxar veiddir eftir eitt ár í sjó voru 322 og miðast við kvarðan sem telur 3,5 kg og undir vera eins árs laxa. Stærri fiskar voru 235 talsins.

Ef hugað er að silungsveiðinni sem að Víðidalsáin er vissulega afar þekkt fyrir þá veiddust á laxasvæðinu 249 bleikjur og 70 urriðar. Á silungasvæðinu 282 bleikjur og 126 urriðar. Lang mest af þessum urriða er sjógenginn og margir vænir. Alls gera þetta 531 bleikju og 196 urriða. Samanlögð silungsveiði var því 727 fiskar.