Stærsti lax sumarsins til þessa var dreginn á land í gær og þarf ekki að koma sérstaklega á óvart hver það var sem setti í drekann. Enginn annar en Nils Folmer Jörgensen sem hefur landað þeim mörgum og risavöxnum síðustu árin. Þessi belgur var 111 cm!
Nils var talsvert niðri fyrir er hann lýsti atburðinum og skyldi engan undra. Hann sagði: „Hver andsk… þessi á kemur manni stanslaust á óvart. Maður heldur að maður hafi upplifað eitthvað á bökkum hennar sem verði ekki endurtekið og hvað gerist? Búmm. Það gerist aftur. Eftir tvær vaktir á Nessvæðunum var ég kominn með fjóra laxa landaða. Sá næst stærsti 98 cm. En kannski það skemmtilegasta við þetta er hvernig ummæli frá Halla Eiríks flutu yfir í nýja flugu og hvaða nafn hún fékk. Við vorum að ræða heimsmálin og Halli hafði á orði að gamall saurlífisseggur hafi nartað í Stormy Daniels. Það varð til þess að ég hnýtti flugu sem ég skýrði Stormy Daniels og í morgun (gærmorgun) kastaði ég Stormy í Vitaðsgjafa. Ekki leið á löngu þangað til gamall saurlífisseggur elti Stormy og í þriðju tilraun gerði hann meira en að narta, hann hrifsaði af krafti í hana og var á! Hann reiddist þessu mjög og rauk niður ána, í átt að Presthyl. Ég hefði ekki ráðið við hann einn og var því þakklátur fyrir að Eiður Pétursson og Arnór Laxfjörð voru að veiða skammt frá og komu hlaupandi með háfinn. Eiður fór fyrir þeim með háfinn, en þegar hann sá hann almennilega vildi hann ekki segja mér hversu stór hann var, vildi ekki stressa mig. Engu að síður var laxinn háfaður fumlaust og hvílík skepna. Það var strax ljóst að hann var vel yfir þessum töfrandi 100 sentimetrum. Satt best að segja þá mældum við félagarnir hann 111 sentimetra.“
Það var og. Við höfum ekki heyrt af stærri laxi í sumar, en endilega leiðrétta okkur ef við erum að fara með rangt mál með það