Ráðstefna um stöðu og framtíð Atlantshafslaxins

Elliðaárnar, Heimir Óskarsson
Lax á lofti í Elliðaánum. Mynd Heimir Óskarsson.

Á morgun hefst tveggja daga ráðstefna þar sem fjallað verður um stöðu og framtíð Atlantshafslaxins. Það er félagið Six Rivers Project sem stendur að ráðstefnunni, en það er í eigu Sir Jim Ratcliffe sem hefur helgað miklum fjármunum í margháttaðar rannsóknir á laxastofnum, búsvæðum og umhverfi á Norðausturhorninu.

Six Rivers Project yfirtók í sumar rekstur Veiðiklúbbsins Strengs á laxveiðiám í Vopnafirði og Bakkaflóa. Ratcliffe hefur síðustu sumur haldið úti hópi sérfræðinga og vísindamanna sem hafa unnið sumarlangt að rannsóknum á þessum slóðum. Hann mætir sjálfur til ráðstefnunar auk fjórtán sérfræðinga og vísindamanna sem munu halda tölur um athuganir sínar og rannsóknir. Þá koma sumir frummælendur frá öðrum löndum þar sem laxinn á jafnvel meira undir högg að sækja en á Íslandi. Auk þess verða pallborðsumræður.

Fyrirlestrarnir verða af ýmsum toga, vistkerfin, skógrækt nærri búsvæðum, athuganir á aðstæðum í hafinu, alþjóðleg samstarfsverkefni og síðast en ekki síst uppgangur hnúðlaxa á Íslandi, en þeirri aðskotategund fjölgar mjög og sér ekki fyrir endann á því, né er vitað til fulls hvaða áhrif fjölgun þeirra í íslenskum ám kann að hafa á lífríki áa.

Þetta er í annað skiptið sem Ratclif­fe og fé­lag­ar standa fyr­ir ráðstefnu sem þessari í Reykja­vík, halda átti ráðstefnu í fyrra en frá því var horfið vegna stöðunar á Covid 19. Taka verður fram að ráðstefnan er ekki opin almenningi. VoV mun miðla af bestu getu því sem fram fer og skiptir mestu máli.