Hrútan kvittaði undir með trölli!

Þessa mynd birtu Strengir, tröllið á lokadegi úr Hamarshyl, ekki alveg 100 cm en gæti samt vel verið tuttugu pundari!

Veiðiþjónustan Strengir fagna því að eitt af þeirra flaggskipum, Hrútafjarðará hélt í horfinu og skilaði sömu laxatölu og í fyrra. Sem er ekki lítið þegar að er gáð að nýliðin vertíð þótti ekkert sérstök, jafnvel mjög slök. En svona er þetta og lokadaginn veiddist einn fullorðinn.

Þröstur Elliðason eigandi Strengja segir í fréttatilkynningu: „Veiði er lokið í okkar ám og tölur á leið í hús núna á haustdögum. Það er skemmtileg tilviljun að lokatalan í Hrútafjarðará er sú sama upp á lax núna og var sumarið 2020 eða 372 laxar! Ótrúleg tilviljun og ekki skemmir að síðasti laxinn var líka einn af þeim stærstu. Var það þessi glæsilegi 96 cm hængur sem kom lokadaginn 30. september úr Hamarshyl. Nánari fréttir og lokatölur úr öðrum veiðiám okkar verða birtar á næstunni.“