Martin Falklind og Valgerður Árnadóttir með flottan Hofsárhöfðingja.

Hópur Svía hefur verið hér á landi síðustu daga við upptökur við íslenskar laxveiðiár. Tilgangurinn er að fara vandlega yfir hvernig Íslendingar haga málum í rekstri laxveiðiáa. Settur verður saman ítarlegur þáttur sem sýndur verður í sænsku sjónvarpi og jafnvel víðar.

Valgerður sleppir fallegum laxi í Hofsá, allt tekið upp.

Árni Baldursson hjá Lax-á og Valgerður dóttir hans sáu um Svíana hér á landi, skipulögðu ferðina og stýrðu málum. Mest af efninu var tekið upp við Hofsá í Vopnafirði, en einnig nokkuð við Stóru Laxá í Hreppum og Ásgarð í Soginu. „Þetta er tilkomið frá efstu stöðum, umsjónarmaður hópsins heitir Martin Falklind og er meðal annars sá er yfirsér alla útivist Svíakonungs. Það er mikill áhugi í Svþjóð og fleiri nágrannalöndum um það hvernig Íslendingar haga málum í umsjón og rekstri laxveiðiáa. Menn vilja læra af Íslendingum vegna þess að hér eru slík mál almennt til fyrirmyndar á sama tíma og margt er í ólestri má segja í Svþjóð og víðar, menn að selja hver fyrir sínu landi, jafnvel til netaveiða. Þessi heimsókn snérist alls ekki bara um að taka upp efni við fallegar laxveiðiár, tekin var fjöldi viðtala, t.d. við sérfræðinga hjá Hafró, landeigendur og leigutaka. Allar hliðar kannaðar sem sagt,“ sagði Árni í samtali við VoV í dag.

Þarna er Árni að glíma við einn í Hofsá undir suði myndavélarinnar.

Svíarnir náðu fallegu efni á bökkum ofangreindra laxveiðiáa. Meginþunginn er við Hofsá þar sem mörgum fallegum löxum var landað. Hér fylgja nokkrar myndir með leyfi Árna, fleiri má sjá á FB síðu hans.