Urriðafoss, Þjórsá, Hjálmar Árnason
Það getur verið snúið að landa laxi í Urriðafossi! Myndin er fengin af FB síðu IO.

Það er tilfinning manna að laxveiðin hafi farið mjög vel af stað og hér birtum við nokkrar tölur sem svo sannarlega staðfesta það. Þetta kemur örlítið á óvart því að fæstir reiknuðu með sterkur stórlaxagöngum.

Nýja undrið, Urriðafoss í Þjórsá, hefur slegið í gegn.  Fyrstu sex veiðidagana komu þar á land 80 laxar á tvær dagstangir sem er milli 6 og 7 laxar á hverja dagstöng. Ekkert lát á veiðinni þar.

Urriðafoss, Hjálmar Árnason, Þjórsá
Hjálmar Árnason með fallega hrygnu sem hann hafði mikið fyrir í Urriðafossi um helgina.

Blanda fór líka afar vel af stað, en veiðin þar hófst 5.6 s.l. Eftir tvo og hálfan dag hafði 28 löxum verið landað á fjórar stangir. Sjö stykki æa hverja stöng að meðaltali. Ekki amaleg veiði það.

Og ekki eru menn að kvarta við Norðurá. Þar var veitt á átta stangir fyrstu dagana og voru 33 komnir á land eftir tvö daga. Þar virtist takan vera „grennri“ því að a.m.k. annað eins af laxi tók en slapp.

All nokkrar ár hafa bæst í ört stækkandi hóp þar sem menn hafa verið að sjá til laxa óvenju snemma. Má nefna Selá í Vopnafirði, Elliðaárnar, Stóru Laxá, Ytri Rangá og fleiri.