Þjórsá, Urriðafoss, Harpa Hlín
Harpa ætlaði að sleppa honum, en hann vildi ekki sleppa, en slapp samt.

Óhætt er að segja að opnunardagurinn í Urriðafossi hafi verið geggjaður. Aldrei fyrr hefur stangaveiðisvæði verið opnað jafn snemma og það var líf og fjör. Tíu landað og önnur eins tala slapp. Allt spikfeitir tveggja ára fiskar.

Við heyrðum í Hörpu Hlín Þórðardóttur í kvöld og hún sagði daginn bæði hafa verið erfiðan og frábær. “Það voru ferleg skilyrði, rigning og vatnavextir, áin var í 720 rúmmetrum og gruggug. Þess vegan dugði aðeins “náttúruleg beita”. En þetta var ótrúlega gaman og magnað að sjá að það voru hængar í aflanum, en landeigandinn hér sagði það afar óvenjulegt,” sagði Harpa, en gamla sagan segir að ef að hængar komi með hrygnunum í byrjun vertíðar, lok mai eða í júní, þá viti það á frábært veiðisumar. Eigi ómerkilegri einstaklingur en Björn heitinn Blöndal skrifaði um það í bókum sínum og hafði áratuga langa reynslu af netaveiðum í mai og júní í Hvítá til að miða við.

En hvað um það. Harpa nefndi náttúrulegt agn. Sem sagt maðkur. Allt í fínu með það, það verður að nota það sem dugar og virkar. Laxarnir voru allir stórir, á bilinu 75 til 91 cm og allir akfeitir.

Menn hafa velt líka fyrir sér austurbakkanum, Þjórsártúnsmegin. Þar voru menn að veiðum, en veðrið var þeim mun óvinsamara og þeir hættu á hádegi. Allt það svæði er ókannað og fást eflaust fréttir af því næstu daga og vikur þegar veður roast og fleiri reyna fyrir sér. Það svæði er sagt gífurlega spennandi, en þar er veitt nærri óhemju gjöfulum netalögnum, alveg eins og við Urriðafoss.