Umhverfi Hafralónsár er magnað.

Það hafa verið nokkrar sviptingar á leigumarkaðinum að undanförnu, en sumt breytist ekki, Hreggnasi hefur nú framlengt í Grímsá og Hafralónsá.

Í fréttatilkynningu sem barst VoV segir m.a.: „Nýverið var framlengdur samningur um Hafralónsá í Þistilfirði til næstu ára.  Hreggnasi kom að leigu Hafralónsár eftir útboð Veiðifélags Hafralónsár 2017. Samstarfið hefur gengið með miklum ágætum, óhætt er að segja að umgjörð og orðspor vatnasvæðisins hefi tekið stakkaskiptum síðustu ár og má segja að Hafralónsá sé á góðri vegferð að ná fyrri styrk, enda um að ræða einhverja alfegurstu á landsins. Veiðifélagið Hreggnasi hefur alla tíð horft á samvinnu landeigenda og leigutaka sé grunnurinn að góðum árangri í rekstri veiðivatna.

Hafralónsá í Þistilfirði er ein af stærri dragám norðausturulands, 40 km. að lengd, með um það bil 770 ferkm. vatnasvið. Þá eru meðtaldar þverárnar Laxgeng er hún 23 km að Laxfossi og er þar að finna yfir 55 merkta veiðistaði. Hafralónsá þykir með þeim fallegri að veiða enda er umhverfi hennar rómað sem og veiðistaðirnir í ánni. Hún er þekkt fyrir stóra laxa. Þess má geta að Hafralónsá er ekki aðili að „Six river project“

Hann er á í Laxfossi í Grímsá.

„Þá hefur samkomulag hefur náðst um áframhaldandi leigu á Grímsá og Tunguá í Borgarfirði. Grímsá og Tunguá eru án efa meðal mestu laxveiðiáa landsins, en samstarf þessara aðila nær allt til ársins 2004 þegar að Hreggnasi tók við sölu veiðileyfa af landeigendum sjálfum, því er um að ræða eitt lengsta viðskiptasamband milli aðila á veiðileyfamarkaði í dag.  Grímsá í Borgarfirði hefur langa samfellda sögu stangaveiða, en þær ná aftur til ársins 1862, þegar að enskir veiðimenn fóru að venja þangað komur sínar.  Meðalveiði sl. 20 ára eru um 1.300 laxar á ári, en við ána stendur eitt glæsilegasta veiðihús landsins. Samningurinn er mikið gleðiefni fyrir aðstandendur Hreggnasa, en félagið fagnar 20 ára starfsafmæli í ár.“