Aðaldalurinn „Bara alvöru laxar“

Halla Bergþóra Björnsdóttir og Jón Helgi Björnsson með 86 cm hrygnu Höllu. Mynd aðsend.

„Við veiðum bara alvöru laxa í Laxá“, sagði Jón Helgi Björnsson á Laxamýri í samtali við VoV en Laxá í Aðaldal var opnuð í morgun á hefðbundinn hátt með því að Laxamýrafjölskyldan veiddi neðan við Æðarfossa. Þrír laxar komu á land, allir stórir.

90 sentimetra laxinn sem getið er um í textanum. Mynd aðsend.

Jón Helgi lýsti morgninum svona: „Þrír fiskar á land, en sett í 6 í Æðarfossunum í morgun. Stærsti fiskurinn sem sett var í var 94 cm hængur úr Fosspolli. Hann vildi ekki myndatöku og slapp úr höndum manna þegar taka átti  og veiðimaður var Vigfús Bjarni Jónsson. Næst stærsti laxinn var 90 cm hængur úr Kistuhyl og veiðimaður var Jón  Helgi Björnsson og með honum börn hans Björn Gunnar og Sjöfn Hulda. Síðan veiddi Halla Bergþóra Björnsdóttir 86 cm hrygnu í Kistukvísl sem var fyrsti fiskurinn sem kom á land. Aðstæður voru erfiðar kalt og hvasst, en nóg vatn. Flugurnar voru Abbadís og Frances. Slæðingur var af laxi og fiskurinn lúsugur.“