Líflegt í Heiðardalnum

Prýðisgóð veiði hefur verið að undanförnu í Heiðarvatni í Heiðardal ofan Mýrdals, enda hefur vorað vel á heildina litið, en það er lykillinn þar sem vatnið liggur fremur ofarlega.

Í Heiðarvatni veiðist falleg bleikja, staðbundinn urriði og jafnan nokkuð af sjóbirtingi sem getur verið afar vænn. Allar þessar tegundir hafa verið að gefa sig að undanförnu, urriðarnir mest framan af en bleikjan að koma meira inn að undanförnu. Það eru mikið til erlendir veiðimenn sem fara í vatnið, sem er uppistöðuvatn Vatnsár. Þeir fá jafnframt að skreppa í ána og þar liggja einnig vænir urriðar eins og sá sem myndin er af, en þetta tröll veiddist um helgina. Ekki er óalgengt að setja í 50 til 70 sentimetra urriða í ánni.  „Þetta hefur verið jafnt og þétt hjá okkur, enda gott árferði og mikill fiskur í vatninu,“ sagði Ásgeir Arnar Ásmundsson umsjónarmaður vatnsins í skeyti til VoV.