Þjórsá, Urriðafoss, Stefán Sigurðsson
Stefán Sigurðsson hjá Iceland Outfitters með fyrsta stangarveidda lax sumarsins, sem vitað er um, 10 punda hrygnu úr Urriðafossi í Þjórsá.

Fyrsti stangarveiddi lax sumarsins kom á land í dag og eins og svo oft áður, á óvæntum stað á undan formlegu opnunum á frægu ánum. Að þessu sinni var það Urriðafoss í Þjórsá, 10 punda hrygna og fossinn iðaði að sögn af lífi!

Það var Stefán Sigurðsson hjá Iceland Outfitters sem veiddi laxinn og sagði svo frá: „Ég var ekki búinn að veiða nema max 2 mín þegar hann tók. Þetta var falleg 10 punda hrygna og segja má að fossinn hafi iðað af lífi. Ég stoppaði bara stutta stund, kannski tuttugu mínútur,  og sá nokkra laxa stökkva. Annar tók stuttu seinna og tóku báðir maðk, en þetta var ekki veiðitúr þannig séð, IO eru að taka þetta svæði á leigu og ég var eystra að ganga frá lausum endum. Langaði svo að setja saman og prófa í smá stund og sé ekki eftir því. Annars verður svæðið opnað formlega á morgun og ég spái brjálaðri veiði,“ sagði Stefán kampakátur.

Gaman verður að fylgjast með þessu nýja svæði, en það hefur ekki verið þekkt fyrir stangaveiði. Frekar sem netaveiðistaður og verið mikil veiði, enda fyrsta hindrun laxa í Þjórsá, sem er mikil laxveiðiá. Menn hafa þó kastað í þetta áður og sett í laxa. Ævinlega orðið vart við mikið af laxi.