Þverá í Borgarfirði, Kaðalstaðahylur, Ingólfur Ásgeirsson
Laxinn er mættur í Þverá í Borgarfirði,. Myndin er frá Kaðalstaðahyl, þar sem fyrsti lax sumarsins veiddist.

Laxar sáust í Þverá í Borgarfirði í dag og að sögn leigutaka er það fyrsta staðfesting sumarsins að sá silfraði sé mættur í ána. Kemur ekki á óvart þar sem Þverá/Kjarrá er með einn snemmgengasta stofn landsins.

Ingólfur Ásgeirsson, einn leigutaka árinnar, greindi VoV frá þessu í dag. Sagði hann að lítið hefði verið litið eftir laxi þar til í dag, að Andrés Eyjólfsson, staðarhaldari, hefði fengið sér bíltúr til að kíkja. „Hann sá nokkra stóra og digra í Efri Guðnabakkastreng. Eflaust er laxinn kominn víðar um ána og eflaust fyrir all nokkru miðað við reynslu okkar síðustu ár. Áin hefur alltaf verið með snemmgengan stofn, en í Þverá/Kjarrá eins og annars staðar, virtist þetta vera að færast allt aftur fyrir nokkrum árum. Leigutakar voru víða farnir að færa aftur opnanir, en með hlýnandi árferði og styrkingu stórlaxastofna hefur þetta snúist aftur við síðustu sumur. Við bregðust við þessu með því að fræa opnanir Þverár og Kjarrár fram um nokkra daga, opnum bæði svæðin 10.júní,“ sagði Ingólfur.

Ingólfur sagði enn fremur að miklar við- og endurbætur hefðu verið unnar á og við veiðihúsið að Helgavatni, sem er fyrir Þverá, þar væru m.a. komnir nýir heitir pottar og fleiri svefnherbergi, alls 14 núna fyrir stangirnar 7, þannig að sé tvímennt á stöng geta allir haft sér herbergi.

Þverá hefur nú bæst við síðstækkandi lista yfir ár þar sem snemmgengir laxar hafa skotið upp kollinum, í sumum þeirra all nokkrir. Hefur verið getið Norðurár, sem opnar á laugardaginn, Blöndu sem opnar á mánudaginn, Laxár í Kjós, Laxár í Aðaldal, Leirvogsár og Ytri Rangár (Djúpós). Þá hefur VoV heyrt óstaðfestar fréttir um að til laxa hafi sést í Laxá í Leirársveit og Haffjarðará.