VoV leit við á bökkum Gljúfurár í Húnavatnssýslu um mánaðamótin. Áin er síðsumarsá þegar kemur að laxinum, en það er aldrei að vita hvenær sjóbleikjan leggur torfunni við ós árinnar út í Hóp, veiðistaður sem fylgir ánni. Í ljós kom að torfan var mætt!

Hópið, Gljúfurá
58 cm bleikjutröll landað í ósi Gljúfurár við Hópið. Mynd -gg.
Glóðin, Hópið, Gljúfurá
Þessi stórbleikja tók Glóðina eins og sjá má. Mynd -gg.

VoV varð vart við laxa við ós árinnar út í Hóp, en þegar ýmsir lykilstaðir í ánni voru skoðaðir var ekkert líf að sjá. Pétur Pétursson leigutaki árinnar sagði ána frekar kalda og augljóslega ekki tilbúna, auk þess sem ósinn var breyttur og grunnur. En nú er búið að lagfæra það.

Það er ekki á vísan að róa hvenær sjóbleikjan mætir og lok júní og fyrstu dagar júlí verða seint taldir gulldagar í stóra samhenginu. En á þessum veiðistað eru menn býsna nálægt hafinu. Í ljós kom að mikið var komið af bleikju. Kastað var á ósinn í tvígang og stoppað við í alls tæplega fimm klukkustundir.

Hópið, Gljúfurá
50 cm bleikju rennt upp í fjöruna. Mynd -gg.

Með einni stöng var 50 bleikjum landað og 20-30 sluppu að auki. Nokkrar flugur, mest þyngdar púpur frá Sveini Arnari (Glóð, Rollan), og í stuttu máli skipti ekki máli hverju var þeytt út. Skipti heldur ekki máli hvort veitt var með flotlínu eða sökktaum. Þetta voru nánast upp til hópa vænar bleikjur, mikið í kringum 2 pundin, en fjórar voru 50 til 52 cm og ein 58 cm. Pétur sagði við VoV að þetta kæmi sér ekki á óvart því sjóbleikjan hefði farið að gefa sig óvenju snemma á silungasvæði Vatnsdalsár og væri byrjuð að ganga í efri hluta árinnar. Sumar eru mjög stórar, m.a. veiddist ein í Álku (Álftaskálará), hliðará Vatnsdalsár, sem var 68 cm, dökkur og gamall hængdjöfull, „ég ætla samt ekki að halda því til streitu að þessi hafi verið sjógengin,“ bætti Pétur við.