Það eru allskonar vangaveltur í gangi um hvað eigi, megi og hvað ekki í umræðunni um norska sjókvíaeldið á Íslandi. Grein frá fagsviðsstjóra hjá MAST var sérstök í Fréttablaðinu þann 9.5 og Orri Vigfússon svaraði henni í sama blaði í dag.  Skoðum þetta aðeins…

Fagsviðsstjórinn hjá MAST heitir Soffía Karen Magnúsdóttir og kemur víða við í pistli sínum. Við ætlum ekki að stoppa við það allt sem hægt væri, en hún gerir t.d. lítið úr lúsahættu. Falleinkun þar, reynslan af sjókvíaeldi hér á landi til þessa hefur verið á mun minni skala og í kaldari sjó. Nú fer sjór hlýnandi og eldið á leið í risavaxið. Hún heldur að hún sé að skrifa til vitleysingja.

Minnist lítið eða jafnvel ekki neitt á augljósa hrikalega mengun í fjörðum landsins. Ekki orð um að laxeldi í opnum sjókvíum er eina matvælaframleiðsla sem hefur til þessa mátt droppa öllu sínu skólpi beint í hafið, í þessu tilviki í lokuðum djúpum fjörðum þar sem margvíslegt blómstrandi lífríki hefur hreiðrað um sig í aldana rás. Norsku eigendurnir eru að hrökklast frá þessu fyrirkomulagi heima fyrir en þar sem það kostar minnst, þá flykkjast þeir auðvitað hingað til lands.

Hún talar um að grípa til viðeigandi aðgerða ef að eldislaxar sleppi úr kvíum. Þetta er kunnugleg setning, hana hefur Einar K. Guðfinsson margtuggið. En okkur á VoV og fleirum er spurn: Hvaða aðgerðir eru það? Sleppi, eins og í Skotlandi fyrir skemmstu, hundruð þúsunda laxa, hverjar  eru þessar „viðeigandi aðgerðir“? Að þegja um sleppingar eins og verið hefur? Það væri fróðlegt að vita hverjar þessar viðeigandi aðgerðir eru. Norðmenn sjálfir eru með áform um að fara með eldið inn í lokuð kerfi á landi. Svíar eru að stoppa opna sjókvíaruglið. En hér er villta vestrið.

Og svo er þessi fagsviðsstjóri að tala um að taka þátt í rannsóknum og þróun á geldfiski. Og sumir stangaveiðimenn og umhverfissinar hafa látið í veðri vaka að þar gæti verið málamiðlun. En það er engin málamiðlun fólgin í því. Það er allt of dýrt fyrir eldisfyrirtækin, þau ætla sér ekkert svoleiðis og geldfiskeldi í opnum kerfum losar okkur ekki við lúsaógnina og mengunina. Og sleppi geldfiskur í miklu magni myndi hann vissulega ekki ógna erfðauppbyggingu villtra stofna, en það er algerlega órannsakað hvaða óskunda hann gæti leitt af sér, eins og t.d. regnboginn, sem viðurkennt er að alinn sé í elstu og lélegustu kvíunum…

En það væri hægt að halda áfram enn um stund, en við setjum stopp hér í bili og rennum svargrein Orra við alveg hreint kostulegri grein fagsviðsstjórans hjá MAST. Orri skrifaði:

Í grein sinni í Fréttablaðinu í gær (9. maí) blandar Soffía Karen Magnúsdóttir, fagsviðsstjóri hjá Matvælastofnun,  saman öruggu fiskeldi og hættulegu fiskeldi. Opnar sjókvíar hafa alls staðar spillt umhverfinu. Því er þróun seinustu ára sú að færa fiskeldi í lokaðar kvíar („closed containment“) eða upp á land. Allt núverandi og fyrirhugað sjókvíaeldi á Íslandi er miðað við gamla og úrelta tækni. Opið sjókvíaeldi í stórum stíl er bannað í Alaska, Svíþjóð og á Írlandi. Í Noregi hefur Marine Harvest, stærsta fyrirtækið í laxeldi í sjó, snúið baki við eldi í opnum sjókvíum. Fyrirtækið miðar nú allt sitt framtíðareldi við lokuð kerfi. Lög um náttúruvernd hér á landi kveða á um að náttúruan eigi að njóta vafans andspænis mengun og umhverfisspjöllum af manna völdum. Óskandi væri að Matvælastofnun færi að þeim lögum í störfum sínum. Sigrún afneitar hættunni af laxalús við Íslandsstrendur. Allir erlendir sérfræðingar sem hafa komið hingað á fiskeldisráðstefnur hafa sagt að hugmyndafræði MAST um laxalús standist ekki. Ítrekað hefur verið bent á hættuna sem fylgir lúsinni sem magnast alls staðar upp í stórfelldu sjókvíaeldi. Undanfarin ár hafa útgefin rekstrarleyfi byggst á mati vanhæfra einstaklinga sem hafa í nýlegum sjónvarpsviðtölum viðurkennt slíkt vanhæfi. Þess vegna þarf að afturkalla og endurmeta öll starfs- og rekstrarleyfi fiskeldis, sl. tíu ár eða svo. Geldfiskur úr eldi getur valdið skaða á hrygningarsvæðum villtra laxa auk þess sem saur- og fóðurleifamengun til viðbótar við sníkjudýrasmit berst óheft út í umhverfið frá slíku eldi.