Sjóbirtingur, Varmá
Glæsilegur sjóbirtingur. Mynd -gg.
Sjóbirtingur, Eldvatn
Veiðimaður með fallega sjóbirtingshrygnu úr Eldvatni fyrir skemmstu. Mynd: FB síða Eldvatns

Það líður að lokum vorvertíðarinnar á sjóbirtingi. Eldvatni var lokað um helgina, en óhemja var þar af fiski. Þá voru menn einnig í fínum málum í Geirlandsá og Tungulæk. Mikið er af geldfiski sem veit á gott.

Greint var frá því á FB síðu leigutaka Eldvatns að lokahollið um helgina hafi landað 112 birtingum og alls hafi 277 verið landað í vorveiðinni sem þó stóð aðeins yfir í ríflega tvær vikur. Það er feiknafín veiði. Fram kemur að „í restina hafi uppistaðan í veiðinni verið 50 til 65 cm geldfiskur sem rímar við fréttir af öðrum verstöðvum, eins og t.d. í Geirlandsá, þar sem vorveiðin að þessu sinni hefur verið margfalt meiri heldur en menn muna, voru líka veiðimenn um helgina sem sögðu einfaldlega „mikil veiði“. Og mjög mikið af aflanum í vor er misstór geldfiskur, allt frá 40 cm og upp í ríflega 60 cm. Í Tungulæk er sömu sögu að segja. Þetta segir aðeins eitt, og það er að mikil og góð uppsveifla er í sjóbirtingsstofnum á þessum slóðum og haustvertíðin og næstu árin ættu að vera fantagóð.

Þrátt fyrir þetta umtalsverða magn af geldfiski þá er stór fiskur líka sterkur í aflanum, t.d. var holl í Tungufljóti með á fjórða tug fiska sem allir voru á bilinu 70 til 95 cm.

En síðan þetta: Jón Hrafn Karlsson leigutaki Eldvatns vildi bæta um betur við fréttina og er okkur ljúft og skylt að smella því hér inn. Hann sagði: „2gja vikna vorveiði lauk um mánaðarmót með veiði upp á 277 sjóbirtinga. Síðan þá hafa menn veitt örfáar vaktir , 1-3 veiðimenn í hvert sinn og aflinn er kominn yfir heildarveiði metárið 2016 , eða 390 sjóbirtingar…“