Þingvallavatn, Kristján Páll, Svörtuklettar

Það hefur verið flott veiði á svæðunum sunnanvert í Þingvallavatni í vor, enda koma þau fyrst inn vegna þess að vatnshiti er lægri þar en annars staðar. Fleiri svæði hafa verið að tikka inn…

…eins og t.d. svæði Fishpartner sem Kristján Páll Rafnsson er í forsvari fyrir. Það eru áhugaverð svæði, kannski einna helst ós Villingavatnsár, en þangað leitar urriðinn eigi ósvipað og upp í ós Ölfusvatnsár. Einnig Káranes með sína Svörtukletta.

Urriði, Villingavatnsárós
Risaurriði úr Villingavatnsárósi.

Við heyrðum í Kristjáni í kvöld, enda hefur verið fremur lítið að frétta af hans svæðum að undanförnu, en það breyttist í vikunni:  „Það datt líf í vatnið í gær eftir skítaveður undanfarna daga. Villingavatnsá hafði bólgnað út og var kolmórauð, Ósinn bókstaflega kraumaði af fiski. Það komu 25 fiskar á eina stöng þar í gær. Margir vænir. Á Kárastöðum var kropp, en þar lönduðu menn 2 vænum 76 og 78 cm en settu í fleiri sem sluppu. Síðan varð allt vitlaust og það komu yfir fjörtíu við Svörtukletta í dag, alveg slatti þeirra um tuttugu pundin. Þetta verður dagur sem viðskiptavinir mínir munu ekki gleyma, þvílíkur dagur. Það verður gaman að fylgjast með næstu dögum því að vatnið er greininlega vaknað til lífsins,“ sagði Kristján Rafn.