Eins og fram hefur komið oft og mörgum sinnum var laxveiðin yfir meðalveiði síðustu ára í fyrra þráyy fyrir meinta smálaxafæð og vatnslitlar ár í löngum þurrkum. En færa má þó rök fyrir því að meira hafi verið af smálaxi heldur en margir vildu vera láta….

…en það töldum við okkur geta lesið úr skýrslu árnefndar Elliðaána sem birt var fyrir nokkru á FB síðu umsjónarmanna ána. Við vitnuðum um annað í þeirri skýrslu í frétt fyrir nokkru, og þá um mögulega breytingu á utanumhaldi ána og hækkun verðs veiðileyfa í náinni framtíð. En þetta með smálaxinn, það kemur nokkuð athyglisvert fram í skýrslunni.

Alls veiddust 675 laxar í ánum í fyrra sem þykir ekki sérlega merkilegt. Mun lakara t.d. heldur en 2015 þegar 870 komu á land, en samt mun betra heldur en slaka sumarið 2014 þegar veiddir laxar voru aðeins 457.  En í skýrslunni sem um getur stendur að „laxagangan var með betra móti sé litið til síðustu ára.“ Kemur síðan fram að í vertíðarlok hafi 1603 laxar verið farnir upp fyrir teljarann og þar sem 170 hafi verið veiddir neðan hans hafi áætluð heildarganga verið a.m.k. 1773 laxar, eða „mun meira en undanfarin ár,“ eins og segir í skýrslunni.

Elliðaárnar. Laxar í Teljarastreng. Mynd Heimir Óskarsson.
Elliðaárnar. Laxar í Teljarastreng. Mynd Heimir Óskarsson.

Fram kemur einnig að veiðihlutfall göngunnar hafi verið óvenjulega lágt miðað við það sem menn eiga að venjast, að teknu tilliti til slepptra laxa, sem voru 21,6 prósent af aflanum, hafi veiðihlutfallið aðeins verið um 31 prósent, en algengara væri að það væri nærri 50 prósentum. Þetta skrifar skýrsluhöfundur á hin slöku skilyrði sem lengi herjuðu á veiðimenn og árnar, sólfar mikið, oft heitt í veðri og lítil sem engin úrkoma vikum saman. Laxinn tók afar illa við þær aðstæður.

                                   Svipuð saga víðar

En svipaða sögu má segja um fleiri ár á vestanverðu landinu þar sem flestar lakari veiðitölurnar fyrirfundust. Viðkvæðið var að þó að meira væri af stórlaxi þá væri lítið af smálaxi. Það eru ekki svona útreiknaðar tölur yfir þetta á hverjustrái, en sem dæmi þá veiddist aðeins 601 lax í Laxá í Kjós í fyrra, en rétt áður en haustveiðin fór af stað sagði Haraldur Eiríksson hjá Hreggnasa, sem er leigutaki árinnar, að laxamagnið í ánni gæti auðveldlega staðið undir þúsund laxa veiði ef að skilyrðin yrðu heppileg um haustið. Þau voru það síðan ekki fyrr en í blálokin, því fór sem fór. Nákvæmlega sömu sögu mátti segja um nágrannaána Lax á í Leirársveit og víðar mætti stinga niður fæti með sömu stöðuna. Borgarfjarðarárnar nánast allar, Langá, Straumfjarðará, þá síðastnefndu skoðaði ritstjóri í návígi bæði í lok júlí og í lok veiðitíma og þó að menn hafi séð meira af laxi í ánni áður, þá var engin laxaþurrð á ferðinni. Allar þessar ár skiluðu fremur dræmri veiði miðað við góð sumur hin seinni ár