Laxá í Kjós opnuð í 3c og norðan fræsingi

Þóra Hallgrímsdóttir með fyrsta laxinn úr Laxá i morgun, með henni er Óðinn Elísson.

Veiði hófst í Laxá í Kjós í morgun og komu tveir laxar á land í heldur óvinsamlegum aðstæðum, „norðan þræsingi og 3 stiga hita,“ eins og leigutakinn Haraldur Eiríksson orðaði það.

Þóra Hallgrímsdóttir fékk fyrsta laxinn, 61 cm smálax í Kvíslafossi á Míkrótúpu.  Síðan landaði Gunnar Örlygsson öðrum smálaxi, heldur stærri og það var það eina sem náðist á land.

Gunnar Örlygsson með 67 cm lax úr Kvíslafossi, með honum Arthur Galvez.

„Við vitum í raun ekki stöðuna. Hér voru 3c og norðan fræsingur í morgun. Það var talsvert af laxi um helgina, en hann virðist vera genginn upp. Slangur af laxi sem við þurfum nú að finna í ánni ofan við Laxfoss.

Siggi Hall að græja laxasúpuna frægu.

„Já menn fá laxasúpuna frægu í hádeginu, það þarf bara einn lax í hana,“ bætti Haraldur við og vísaði þar til gamallar hefðar frá níunda áratugnum þegar Siggi Hall var kokkur í veiðihúsinu um all nokkurt skeið. Hann kom alltaf á árbakkann og lagði hald á fyrsta laxinn og hafði hann í súpu. Nú er Siggi aftur kominn í eldhúsið í Kjósinni og auðvitað er þá gamla hefði upp tekin að nýju.