Eldvatn tók aðeins við sér í dag eftir skítaveðrið í gær. Sól og blíða, en ennþá kalt. Vindkælingin samt í núlli í dag. Menn voru í góðum málum, lönduðu þremur boltafiskum og misstu marga.

„Þremur var landað, 71, 83 og 85 cm boltum. Menn urðu varir við fleiri fiska og misstu all nokkra,“ sagði Jón Hrafn Karlsson einn leigutaka Eldvatns í samtali við VoV í kvöld. En hann benti á að það væri hret í kortunum og kannski ekki mikilla frétta að vænta á næstu dögum. Hvað hretum viðvíkur, þá höfum verið í nánu sambandi við stjórnarherra SVFK sem fóru austur til að opna Geirlandsá. Gunnar Óskarsson sagði okkur nú í kvöld, að enn væri ís á ánni í Ármótunum sem standa undir um það bil 90 prósent af vorveiðinni og þar sem frosthret væri í kortunum mætti ætla að nokkrir dagar væru enn í að hægt væri að opna ána.