Selma Björk Gunnarsdóttir, Ólafur Guðmundsson, Vatnamót
Selma Björk Ísabella Gunnarsdóttir að glíma við vænan fisk í Vatnamótunum. Mynd Ólafur Guðmundsson.

Mikið er enn af sjóbirtingi í fallvötnum Vestur Skaftafellssýslu. Veður hefur sett strik í reikninginn en þegar menn hafa stundað veiðiskapinn hefur ekki staðið á viðtökunum úr djúpinu. Við heyrðum nýverið frá Vatnamótunum.

Ingólfur Kolbeinsson, Vatnamót
Ingólfur Kolbeinsson með tröllið úr Vatnamótunum.
Flugur, Vatnamót
Black Nosed Dace

Til að mynda var Ingólfur Kolbeinsson kaupmaður í Vesturröst þar á ferð í vikunni og landaði mörgum fiskum, m.a. tröllinu sem hann hampar á meðfylgjandi mynd, „Það voru erfið skilyrði, mikill vindur, en þessi var svakalegur, 82 sentimetra hængur. Þetta voru mikil átök, en ég fékk hann á Black nose dace með scull haus og trailer. Græjurnar voru valdar með tilliti til aðstæðna, skotlína int haus,  taumurinn Orvis Mirage fl karbon 0,27, eða 16,5 punda, stöngin Orvis H2 9 feta fyrir línu sex. Það var fín veiði og flestir fiskarnir 45 til 65 sentimetrar, en síðan slatti af 70 til 82 sentimetra.

Vatnamótin, Ólafur Guðmundsson
Dagur í Vatnamótunum að kveldi kominn. Mynd Ólafur Guðmundsson.

Veiðnasta flugan var Purple Rain. Þetta er krefjandi svæði, mikið þarf að vaða og leita og miklar breytingar á veiðistöðum milli daga oft á tíðum. Þeir koma og fara vegna mikils sandburðar einnig eru miklar sveiflur á vatnsmagni þannig að þetta er ekki auðveld veiði,“ sagði Ingólfur í samtali við VoV.

Undir þetta tóku þau Ólafur Guðmundsson og Selma Björk Ísabella Gunnarsdóttir sem voru á svæðinu í vikunni. Þau veiddu vel og létu vel af fiskmagninu á svæðinu.

Eldvatn, sjóbirtingur
Sá stærsti úr Eldvatninu, 95 cm hængur. Fallegur fiskur! Myndin er fengin af FB síðu leigutaka Eldvatns.

Flott byrjun í Eldvatninu

Eldvatn var ekki opnað fyrr en núna um miðjan mánuðinn og fór vel af stað. Nú var að klára holl sem var komið með 53 fiska undir lok síns veiðitíma og var það nánast allt fiskur yfir 60 sentimetrum og tveir þeir stærstu 80, 84, 87 og 95 sentimetrar að sögn Jóns Hrafns Karlssonar, eins af leigutökum árinnar í skeyti til VoV. Veðurfar var ekki að gera neinum greiða nema þá sjóbirtingunum í ánni.

Þá getum við bætt því við að Tungulækur hefur verið gjöfull að vanda og veiðin að hlaupa á tugum fiska alla þá daga sem veitt er.