Ásdís Kristjánsdóttir með þúsundasta lax sumarsins úr Selá, 96 cm hæng.

Þúsundasti lax sumarsins var dreginn á land í Selá í Vopnafirði í dag. Það var hængur einn mikill, engin smásmíði, 96 cm slagandi hátt í tuttugu pundin. Frábær veiði hefur verið í ánni í sumar og stefnir í að hún verði betri en í fyrra, var þó síðasta sumar mjög gott.

Það var Ásdís Kristjánsdóttir sem veiddi laxinn og notaði rauða Frances numer 16 á gullkrók. Glíman við hænginn stóð yfir í fimmtíu mínútur. Með því að þetta var þúsundasti laxinn í sumar, þá togaði þessi lax vikutöluna upp í 131 lax, en síðast liðið miðvikudagskvöld var Selá með 869 laxa veidda skv angling.is. Angling tekur aftur stöðuna annað kvöld og eru því líkur til, ef ekki öruggt að þetta verður besta vika sumarsins í Selá. Lokatalan í fyrra var 1484 laxar.

Það er nokkuð sérstakt að hugsa til þess, að á sama tíma og Norðausturhornið er talið vera á mörkum hins byggilega heims laxins á Íslandi, þá hefur það borið af hér á landi hin allra síðustu brokkgengu ár. Þetta sumar er engin undantekning, nægir að benda til, auk Selár, Hofsár og Jöklu.