Rólegar opnanir á Norðausturhorninu, en það er lax að ganga!

Franskur kappi nýbúinn að missa lax á hits á Hólaflúð í morgun! Pottþétt ekki sáttur.

Jökla var opnuð í morgun, en enginn lax veiddist. Samt var búið að sjá laxa, eina átta eða níu á Hólaflúð og aðra annars staðar. Menn settu í þá suma en misstu og „tylltu“ í fleiri.

„Þeir misstu tvo í Hólaflúð og það var kannski fyrir smá klaufaskap, öngull hafði laskast í bakkasti án þess að menn yrðu þess varir. En auk Hólaflúðar þá sáu menn laxa við ármót Jöklu og Laxár. Ekki samt víðar og eitthvað af löxunum sem við sáum í Hólaflúð í aðdraganda opnunarinnar, voru farnir þegar við byrjuðum. Gengnir upp og þá getur verið erfitt að finna þá þegar ekki er meira komið af fiski en raun ber vitni,“ sagði Þröstur Elliðason leigutaki Jöklu í samtali við VoV.

Auk alls þessa þá eru skilyrði afar góð. Fallegt vatn í Jöklu og hitinn á vatninu náði mest 16 gráðum í dag.

Þá getum við sagt frá því að opnun Hofsár var líka afar róleg, róleg en samt enginn dauði og dofi. Fjórir komu á land og víða voru laxar að elta „hitsin“eða grípa þannig að menn tylltu í. Af sjö svæðum sást til laxa á sex svæðum. Þannig að áin er fjarri því laxlaus. Fallegt vatn í ánni.

Eitthvað veiddist og í Sandá og Hafralonsá, nokkrir laxar, en við höfum ekki tölur um það. Vonandi bætum við úr því sem fyrst.