Þessi nýjasta framvinda í veðurfari hefur kannski fengið menn til að gleyma því augnablik að það er aðeins mánuður í vertíð. Að vísu er mars í lengra lagi, 31 dagur, en mánuður er mánuður. Við renndum aðeins yfir möguleikana sem blasa við veiðimönnum frá og með 1.apríl og það er ótrúlega langur listi.

Ef að aðeins er hugað að sjóbirtingi þá opna margar ár. Norðanlands má nefna Litluá, Brunná og Húseyjarkvísl. Vestanlands má nefna Grímsá en aðal massinn er sunnanlands. Þar má nefna Varmá í Hveragerði, Ytri Rangá, Geirlandsá, Vatnamót, Steinsmýrarvötn, Tungulæk og líklega Hörgsá á Síðu. Víða kasta menn líka í Skaftá. Þá eru all nokkrar ár með staðbundnum silungi, Sogið, Minnivallalækur, Galtalækur, Brúará og líklega Hólaá. Við erum ábyggilega að gleyma einhverju, t.d. vitum við að víða í t.d. Þjórsá eru einstaklingar að veiða á lokuðum einkasvæðum.

Þá eru all nokkur vötn sem opna. Vífilstaðavatn opnar t.d. alltaf 1.apríl og er mjög vinsælt þó að það sé að öllu jöfnu ekki endilega sérlega veiðisælt fyrr en líður meira á vorið. Meira að menn séu að fara þangað til að kasta úr sér ryðið ef svo mætti að orði komast. Á Veiðkortinu eru nokkur vötn þar sem segir að veiði hefjist „er ísa leysir“, en vert er að geta sérstaklega eins svæðis Veiðikortsins sem opnar 1.apríl og getur ævinlega boðið upp á ævintýri, en það er Hraunsfjörðurinn.