65 cm laxhrygna úr Norðurkoti í Skugga. Hún tók Silver Sheep númer 16.

VoV fékk tækifæri til að líta við á veiðisvæði sem okkur hefur lengi langað til að skoða. Það er veiðisvæði Skugga, í ármótum Grímsár og Hvítár í Borgarfirði. Það hefur verið í lokaðri einkaleigu um langt árabil, en það breyttist fyrir 2020 er Hreggnasi tók svæðið á leigu.

60 cm birtingur úr Norðurkoti í Skugga.

Þetta er fjögurra stanga svæði með tveimur veiðihúsum. Tvær stangir með hvort hús. Þetta eru ekki bara vatnaskilin við Hvítá, heldur nær svæðið nokkuð upp með Grímsá, alveg góða tvo kílómetra eða svo. Þannig er veitt í tæru vatni Grímsár ofan til á svæðinu. Þar eru helstu staðir Skuggi, Skuggastrengur og Lína.

Nafn þessa svæðis, Skuggi, bendir að margra mati til vatnaskilana, en oft finnst mönnum eins og vatnið í vatnaskilum tærs vatns og jökulvatns sé svart. Svartár þessa lands renna allar í jökulár.

Það var gaman að fá að upplifa Skugga, loksins, þó svo að þetta sé ekki ár Grímsár eða Borgarfjarðaána. Þegar við kíktum um helgina voru aðeins komnir um 200 laxar úr Grímsá og eitthvað ríflega 50 úr Skugga. En af sjóbirtingi er þarna nóg og hann er nógu vænn til að laxinn gleymist þegar birtingurinn fer að atast í flugunni.

Okkar reynsla af svæðinu var sú, að efri hlutinn var tregur, en svæðið frá Þvottaklöpp og niður í Norðurkot var heimsókna virði. Þar skutust í gegn laxar af og til, einn náðist á land, 65 cm, annar reif sig lausan og tvisvar var tyllt í fiska sem við vissum að væru laxar. Sjóbirtingar stukku hér og þar á öllum þessum neðri hluta. Við lönduðum tveimur, 51 og 60 cm, misstum einn ca 60 cm og tylltum í 2-3 auk þess sem boðar komu á eftir flugunni af og til. Samkvæmt veiðibókinni hafði veiðin hafist í byrjun mai og var þá veiði góð. Snemma í júlí fór aftur að taka við sér þegar sjóbirtingur fór að ganga og laxinn með. Verulega gaman í Skugga.