Straumfjarðará, fossinn Rjúkandi. Mynd -gg.

Fyrir nokkru var seiðaeldisstöðinni að Laxeyri í Borgarfirði lokað, en það skapar umtalsverðan vanda fyrir eigendur all margra laxveiðiáa á vestanverðu landinu. Eigendur Straumfjarðarár hafa brugðist við með því að nýta beitina fyrir ofan fossinn Rjúkanda.

„Þetta hafði verið rætt í nokkur ár og svo urðu  þessar breytingar á Laxeyri til þess að hugmyndinni  var hrundið í framkvæmd. Það var farið með nokkur pör upp á dal ofan við Rjúkanda og sett í kistu sem síðan var opnuð nokkrum dögum síðar. Svo fáum við úr því skorið næsta haust hvort tilraunin hafi heppnast og það ætti hún að gera, þetta er margreynt annars staðar,“ sagði Ástþór Jóhannsson  í Dal, og leigutaki árinnar að auki, í samtali við VoV.

Það sem Ástþór vísar til er m.a. að seiðum hefur víða verið sleppt ofan ólaxgengra fossa sem hefur skilað sér í styrkingu stofna. Hofsá er gott dæmi þó að hún sé nú um stundir í læg. Þá má nefna ár þar sem seiðum hefur verið sleppt ofan fossa í nokkur ár í aðdraganda þess að síðan hafi verið gerðir fiskvegir upp viðkomandi fossa, t.d. Kambsfoss í Austurá í Miðfirði, fossar í Langá og víðar. Þar sem rannsóknir hafa bent til að beit sé góð fyrir laxaseiði hafa tilraunir sem þessar gefið vel.