Húseyjarkvísl, Valgarð Ragnarsson
Valgarð Ragnarsson með stórlax úr Húseyjarkvísl fyrir skemmstu. Myndin er af FB síðu Húseyjarkvíslar.

Eftir vikutölur angling.is birtust í fyrri viku tókum við þá ákvörðun að hætta birtingu vikuveiðitalna. Þetta er víða búið og annars staðar orðið lúið. Stöku á þó í góðu formi ennþá, en hér ru nýjustu lokatölurnar og smá upplýsingar hvað þær varðar.

Nýjustu lokatölur eru þessar:

Miðfjarðará. Lokatalan var 3765 laxar og lokavikan skilaði 138 löxum á land. Áin hélt afar háum standar út vertíðina og 138 laxar nærri septemberlokum er frábær útkoma. Veiðin í fyrra var 4338. Vissulega er þetta mun minna en í fyrra, munar 573 löxum, en lokatalan í ár eigi að síður geysilega góð.

Langá. Endaði í 1701 laxi og lokavikan þar gaf 161 lax. Var ein besta vika vertíðarinnar. Í fyrra komu 1433 laxar úr ánni þannig að uppsveiflan nú var 268 laxar.

Laxá í Leirársveit. Erfitt tímabil, en lokatölur voru 624 laxar. Það er langt frá því sem áin hefur best getað, en engu að síður var þetta góð uppsveifla frá síðasta sumri sem gaf aðeins 441 lax. Þurrkar léku ána grátt vikum saman, en það var meira af laxi nú en í fyrra. Aflinn 183 löxum meiri.

Hofsá. Lokatölur þar 589 laxar og lokavikan þar gaf 24 laxa. Áin hefur verið í lægð síðustu sumur, en kunnugir telja þetta nýliðna sumar hafa lofað góðu með að áin gæti verið aftur á uppleið. Þetta er 97 löxum meiri veiði en í fyrra, en menn telja að meira hafi verið af laxi nú en þá, enn fremur betur dreifður.

Svalbarðsá. 338 laxar veiddust þar í sumar og lokavikan skilaði 9 löxum í bók. Þetta er 30 löxum minni afli en í fyrra (368) og því eiginlega innan skekkjumarka. Verður líklega að telja þessa vertíð keimlíka þeirri síðustu.