Þorsteinn Joð að glíma við lax í Hofsá. Mynd Einar Falur.

Sú breyting verður á áherslum og starfsemi Strengs, sem er leigutaki allra fallvatna Vopnafjarðar, að nafnið fellur niður og starfsemin færist yfir á Six Rivers Project, sem starfrækt hefur verið hin seinni misseri með lax- og almenna náttúruvernd að leiðarljósi.

SRP snýst um umhverfisátak sem telst afar víðtækt. Það var stofnsett af Sir Jim Ratcliffe og byggir á áratuga löngu verndarstarfi Strengs, sem var stofnaður árið 1959, Hafró og Imperial háskólanum í Lundúnum. Í kynningu á vef SRP segir að laxinn sé í bráðri útrýmingarhættu og honum fækki ört. Enginn viti til fullnustu hvers vegna. Vísindamenn og fleiri sem að verkefni SRP koma á norðausturhorni Íslands vonast til þess að finna svör með rannsóknum á umhverfinu og lífríkinu þar sem fiskarnir eiga sér dvalarstað. Söfnun þekkingar og upplýsinga úr hinu tiltölulega fábreytta umhverfi laxfiska á þessum slóðum gæti gefið svör sem myndu nýtast á stærra sviði. Sá árangur sem gæti náðst á Íslandi gæti nýst um heim allan.

Falleg tilþrif neðan við fossinn í Hofsá. Mynd Einar Falur.

„Ég býst við að við séum fyrsta veiðifélagið sem fer út á þessa stíga, að vera keyrt fyrst og fremst sem verndarfélag. Það hefur verið tilgangur félagsins, í og með,  nokkuð lengi, en verður með þessari breytingu opinbert. Þessi breyting verður kynnt nánar í vetur, líklega í desember, en í stuttu máli snýst þetta um þær vísindarannsóknir sem verið hafa í gangi í Vopnafirði í fyrra og í sumar og verða á komandi sumrum. SRP sinnir verndarstarfi og mun veiðileyfasala Strengs fjármagna starfsemina,“ sagði Gísli Ásgeirsson framkvæmdastjóri Strengs í samtali við VoV.

Aðspurður nánar út í umræddar rannsóknir sagði hann það sem í gangi væri núna væru rannsóknir doktorsnema á vatnasvæðunum þar sem árnar væru rannakaðar með tilliti til þess hvort eitthvað mætti laga eða breyta til að gæða viðkomandi ár meiri skilvirkni og gæða. „Finna flöskuhálsa ef þannig mætti orða það, en fyrir utan að rannsaka árnar þá er feikilega mikið til af gögnum og þekkingu sem hægt er að nýta sér, nægir að benda á veiðibækur, skýrslur Hafró og einnig eru til erlend gögn sem hægt er að lesa og nýta, gera áætlanir, smíða ný líkön o.s.frv. Þá hefur skógræktarverkefnið áður verið kynnt,“ bætti Gísli við.

Þá nefndi hann að að hætt verður hrognagreftri í þeim ám þar sem Strengur hefur haft utanumhald. Í stað þess verður löxum sleppt á nýjar lendur. Það á við um Selá, Vesturdalsá og Miðfjarðará í Bakkaflóa. Áfram verður þó haldið með hrognagröft í Hofsá, enda á könnu Veiðifélagsins þar. „Þetta verða einir fimmtíu laxar til að byrja með í haust, þar af verða 24 útsettir með radíómerki þannig að hægt er að hafa upp á þeim og sjá hvaða ferðalag hefur verið á þeim.“ sagði Gísli.