Stóra Laxá í Hreppum, Laxárholt
Laxárholt á svæði 2 í Stóru Laxá. Myndin er fengin af FB síðu Árna Baldurssonar.

Verið getur að hinar hefðbundnu haustveislur Stóru Laxár í Hreppum séu að hefjast, en veiðimenn hafa orðið varir við aukningu á laxi, sérstaklega á svæðum 1-2. Leigutakinn sjálfur Árni Baldursson landaði t.d. sjö í beit í Bergsnös á svæði 2 á einum og hálfum klukkutíma í gærkvöldi.

Stóra Laxá, Árni Baldursson
Einn af sjö úr Bergsnös í gærkvöldi. Mynd Árni Baldursson.

„Ég fékk sjö laxa á bilinu frá klukkan hálf átta til níu um kvöldið, alla í Bergsnös. Áin hefur verið að vaxa síðustu daga og ég held að stóru göngurnar séu að byrja að hellast inn,“ skrifaði Árni Baldursson í gærkvöldi. Annars hefur veiði verið alveg viðunandi í Stóru í sumar og í vikutölum angling.is þann 29.8 voru komnir 349 laxar á land, svipað og á sama tíma í fyrra (330). Áin endaði þá í 590 löxum og haustveislurnar voru ívið lágstemmdari en þær geta tíðum verið. En hvað gerist að þessu sinni kemur bara í ljós, en það lofar óneitanlega góðu að landa sjö í beit úr sama hylnum á hálfri annarri klukkustund akkúrat þegar skilyrði eru að detta í að vera fullkomin og haustgöngutíminn að renna í hlað að auki.