Sigurlaug Sverrisdóttir, Þverá, Kirkjustrengur
Sigurlaug Sverrisdóttir með glæsilega hrygnu úr Kirkjustreng.

Nokkuð hefur verið í umræðunni allra síðustu árin að tveggja ára laxinn hafi verið að skríða uppúr lægð eftir að hafa verið lýstur í útrýmingarhættu fyrir um áratug. Um þær mundir, rétt áður og æ síðan hefur víðast hvar verið sleppiskylda á stórlaxi í þeirri von að gen þeirra næðu fótfestu á ný. Svo virðist sem að það sé að takast.

Stórlaxinn hefur alltaf verið sterkari Norðanlands en Sunnan- og Vestanlands og þegar smálaxafæð er á þeim slóðum ber enn meira á þeim stóru en ella. En á Suðvestur- og Vesturlandi hefur smálaxinn lengst af verið sterkari og stórlaxagöngur lægri prósenta heldur en smálaxagöngur. Samt skiptu þær gríðarlegu máli á meðan þær voru og hétu og mikill sjónarsviptir af þeim þegar stórlaxi fór að fækka. Hvort sem um var að kenna ofveiði á stórlaxi eða einhverju öðru þá var orðið æði lítið af þeim fyrir um áratug eða svo.

En nú kveður við annan tón og gefum nú sem snöggvast Aðalsteini Péturssyni orðið, en Aðalsteinn, sem er af mikilli veiðimannafjölskyldu ættaðri frá Árhvammi í Laxárdal nyrðra, hefur verið leiðsögumaður við Þverá í Borgarfirði síðustu sex sumrin. „Það er enginn vafi að stórlaxinn er að sækja í sig veðrið. Alveg frá því að ég kom í Þverá fyrir sex árum hef ég séð þetta vera stigvaxandi. Ég sé þetta vel, er hér um áttatíu prósent af veiðitímanum og þetta náði eiginlega toppi s.l. sumar. Veiðin fór vel af stað og lengi framan af sumri var Þverá/Kjarrá efst. Júní var sérlega góður og flott veiði stóð langt fram í júlí en þá hægðist um, aðallega vegna þess að skilyrði versnuðu. En við töldum þetta saman, 70 prósent af júníveiðinni var stórlax. Ég „gædaði“ t.d. eitt holl sem veiddi 11.-15.júní fjóra daga sem sagt og var 70 löxum landað. Það var nánast allt stórlax.“