Snjór í fjöllum.

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að vetur er sestur að og víða um land hefur snjó kyngt niður. Aðallega norðanlands- og austan, en einnig á vestanverðu landinu. Sums staðar hefur fannfergið verið með ólíkindum og hafa bjartsýnustu veiðimenn aðeins leyft sér að hugsa til þess að kannski verði örlítið meira vatn í ánum heldur en á síðasta ári.

Gamlar kempur sögðu gjarnan að það sem mestu máli skipti væri sá snjór sem félli fyrir áramót, því hann næði að festast og þjappast í giljum og gljúfrum til fjalla. Það snjóaði víða duglega fyrir áramót og enn hefur bætt í. Og ekki hláka í sjónmáli. Það er allt í lagi að vera bjartsýnn, en það þarf ekki margra daga hláku til höggva skörð í snjóalögin. En vissulega væri það frábært fyrir lífríkið í heild að vatnsstaða væri með eðlilegri hætti heldur var í hamförunum í fyrra. Þá væri líka fínt að það gengi eitthvað af laxi í árnar, þó að 2019 hafi verið lakasta árið til þessa, þá hafa á allra síðustu árum einnig verið tvö afar slök sumur. Næst sumur á eftir í báðum tilvikum voru frábær. Allt er þegar þrennt er.