Veðrið í dag var þolanlegt og ekki að spyrja að því að veiðin glæddist víða þar sem menn standa í vosbúðinni. Eldvatn tók fallegan kipp. Heyrum hvað Jón Hrafn, einn leigutaka, sagði um daginn:

„Austan átt gefur yfirleitt vel í Eldvatninu og ekki klikkaði það í dag. 8 sjóbirtingar og 1 bleikja á land á eina stöng. Dagurinn byrjaði í Villa þar sem sett var í 2 sjóbirtinga , 63 og 76cm langa. Þaðan var haldið á Flugvallatanga þar sem 86cm sjóbirtingshrygna stóðst ekki Flæðamúsina. Fyrri vaktinni lauk í Þórðarvörðuhyl þar sem 45cm bleikja kom á land.
Seinni vaktin hófst síðan fyrir neðan brú í Gömlu Hlíð eða Gullkistunni eins og veiðimenn kalla staðinn. Hann stóð undir nafni þennan seinnipart og á rúmlega hálftíma komu 3 stórir sjóbirtingar á land , 70cm , 80cm og 83cm. Takan datt niður og haldið var aftur upp í Villa þar sem 2 sjóbirtingar komu á land 75 og 74cm langir.“
Það er augljóst af lýsingum Jóns Hrafns, að fullt er af fiski í ánni og nú bíða menn þess að vorið ekki bara banki á dyrnar, heldur haldi innreið sína. Farfuglar streyma nú til landsins, en Vetur konungur er fúll á móti.