Leirá litla fékk slatta af laxi í síðasta stóra straum og veiddust fyrstu laxarnir í henni óvenjulega snemma þetta árið. VoV kíkti í heimsókn á fimmtudaginn og halaði að landi tólfta lax sumarsins sem að telst harla gott þar sem þetta er kvorki stórveiðiá né snemmsumarsá.
En Leirá er drjúg og býður upp á alvöru möguleika, því auk laxins gengur í hana ævinlega talsvert af sjóbirtingi. Hann virðist að vísu ekki vera kominn enn, en þess er eflaust skammt að bíða ef að hún heldur sig á sömu slóðum og nágrannaárnar Laxá í Kjós og Laxá í Leirársveit. Vorbirtingurinn í ár var auk þess vænni en í fyrra og því von á góðu.
Það kom slangur af laxi í síðasta straumi og fyrsti laxinn veiddist þann 3.7 sem er óvenjulega snemmt fyrir Leirá. Síðan voru menn að tína upp fiska, m.a. var einn með þrjá sama daginn. Á fimmtudaginn bættist sem sagt sá tólfti og stærsti að auki í safnið og var sá 74 cm og veiddist við Hestagirðingu sem er sá staður sem flesta hefur gefið að undanförnu. Fleiri staðir í námunda við umræddan veiðistað hafa og gefið laxa. Þetta er þegar orðið miklu betra en allt síðasta sumar.