Núna fer í hönd algleymi sjóbleikju tímans. Sums staðar var hún farin að veiðast óvenju snemma, eins og á silungasvæði Vatnsdalsár. Síðan kíkti VoV í stutta heimsókn í Gljúfurá í Húnavatnssýslu um mánaðamótin og mokveiddi í ósi Gljúfurár. Hér eru nokkrar flugur sem eru „must“…
Hann er stór barinn í Veiðihorninu og við höfum áður heimsótt hann og pantað þar drykk. Ólafur Vigfússon var barþjónn að þessu sinni og var óspar á veitingarnar. Við vildum eitthvað klassískt og nýtt fyrir sjóbleikjuna. Það sem lesendur sjá hér er smávegis af gamalli klassík, smávegis af klassík þar sem búið er að gera smáveigilegar litabreytingar…og loks, kannski það merkilegasta, flugur sem fáir þekkja.


Skoðum það sem Ólafur mælti með: Klassík er Heimasæta og Bleik og blá. Um þær þarf ekki að hafa eitt einasta orð. Þær hafa rótveitt sjóbleikju frá því að þær komu fram á sjónarsviðið. Og þegar þær fóru í væsa hnýtara og urðu að púpum með kúlur, þá urðu þær eiginlega enn magnaðri sjóbleikjubanar. Þarna getur líka að líta klassískan bleikan Dýrbít og annan sem er nýr…og sá er appelsínugulur.


VoV spruði Ólaf hvort að reynsla væri á öllum flugum í barnum, t.d. appelsínugula Dýrbítnum og hann sagði svo vera. Í fyrra hefðu menn byrjað að nota hann og gengið vel. Appelsínuguli liturinn virtist magnaður, enda engin furða, t.d. væri Nobbler í sama lit frábær fluga í bæði urriða og bleikju.

Talandi um appelsínugular flugur, þá getur þarna að líta appelsínugula útgáfu af Flæðarmúsinni. Upprunalega „músin“ er rauð á vænginn og svo kom svarta afbrigðið. Báðar eru afburðaflugur fyrir bæði urriða og bleikju. Lax líka ef út í er farið. Þessi appelsínugula er ný og verður spennandi að prófa hana.

Í straumflugunum er líka hvítvængjuð fluga með rauðan búk, en vaskakeðjuaugun setja hana í flokk með Nobblerum og það var einmitt það sem Ólafur nefndi hana þó hún sé ekki í dæmigerða Nobblerstílnum að ýmsu öðru leyti. En hún hefur gefið allt sem í boði er, allt frá sjóbleikju til urriða í Veiðivötnum.
Síðan eru það „hinar“ flugurnar. Púpur sem fáir hafa séð og einn „strímer“.

French Nymph. Hún minnir jú óneitanlega á nýju tískufluguna íslensku Zeldu, en margar flugur minna á margar aðrar. Ólafur sagði flugu þessa vera franska eins og nafnið gæfi til kynna og hún hefði ratað í flugubarinn í fyrra. Lítið var litið við henni þannig að mönnum var bent á að prófa hana og viti menn….sjóbleikjan var brjáluð í hana og hún virkaði líka vel á staðbundinn silung, báðr tegundir“ í vötnum.

3D Glass Buzzer. Flugan sú á það sameiginlegt við French Nymph, að vera lítið þekkt hér á landi þangað til í fyrra að henni var otað að mönnum . Síðan er „the rest history“ eins og sagt er á engilsaxnesku. Flugan svínvirkar sem sagt þó að seint verði sagt að hún hafina dæmigerðu sjóbleikju“hollingu“..
Micro Shrimp. Frábær í sjóbleikju. Búið að láta reyna á það. Og af hverju? Bara horfa á fluguna, þetta er marflóareftirlíking og þær virka alltaf frábærlega. Fyrir utan jú hvað sjóbleikjan er gírug í flest sem bleikt er.

Straggle Zonker hefur hlotið sitt eigið íslenska nafn vegna frábærrar frammistöðu hér á landi við sjóbleikjuveiðar. Upprunalega nafnið er augljóslega Amerískt, en það íslenska er „Frú Þórdís“. Nefnd Þórdís er Þórdís Klara Bridde, eiginkona Bjarna Júlíussonar fyrrverandi formanns SVFR, en hann er auk alls veiðieftirlitsmaður í Hraunsfirði og þar hefur frúin hans veitt gríðarlega vel með þessari flugu. Þannig að hún heitir núna Frú Þórdís.

PTN Rubber legs. Þessi púpa er með gúmmílöppum og tungsten haus. Hún var kynnt fyrir hreistruðum íbúum íslenskra vatna og áa í fyrra og aftur núna. Hún hefur gefið mjög góða veiði og full ástæða til að mæla með henni. Þessi púpa hefur gefið bæði sjóbleikju og staðbundinn urriða.

Shrimp Orange. Sver sig nokkuð í ætt við Micro Shrimp, neða á síðunni, sem sagt þetta er marflóarútgáfa. Hún er orðin vel þekkt í flórunni hér á landi, all nokkrir íslenskir veiðimenn hafa farið með hana í sjóbleikju og gert góða hluti.
Í þessum pistli höfum við minnt á nokkrar klassískar og líka sýnt nokkrar klassískar í nýjum búningi. Svo eru hinar. Þær eru ekki nýjar í sjálfu sér, vel þekktar í upprunalöndum sínum. En nýjar hér og hafa staðið sig vel.