Okkur á ritstjórn Vötn og veiði langar til að minnast gengins vinar og velunnara, Orra Vigfússonar, sem féll frá þann 1. júlí sl. eftir erfiða baráttu við krabbamein og var jarðsettur í dag.

Eins og alþjóð veit þá stofnaði Orri NASF (North Atlantic Salmon Fund) verndarsjóð villtra laxastofna. Árangurinn í gegnum árin var slíkur að með ólíkindum má kalla. Hið óeigingjarna starf Orra og félaga hans hefur vakið heimsathygli en Orri var ötull og fylginn sér í verkum sínum. Honum auðnaðist að ná eyrum þeirra sem ráða og jafnframt opna augu annarra á mikilvægi þess að ganga ekki á rétt komandi kynslóða. Hinir viltu laxastofnar voru ær hans og kýr og hann tileinkaði þeim stóran hluta tíma síns. Hann vann á alþjóðlegum grunni þar sem Ísland er einungis eitt af þeim svæðum þar sem mikill árangur hefur náðst.

Orri Vigfússon var jarðsettur í dag.

Orri Vigfússon var í forystu NASF s.l. 27 ár. Hann hafði mikla útgeislun og sannfæringarkraft og hafði einstakt lag á að fá einstaklinga á öllum stöðum og stéttum til liðs við verndarstarfið. Með þessa eiginleika í farteskinu kom hann upp fjölþjóðlegu neti félagsmanna sem unnu markvisst að margvíslegum aðgerðum er miðuðu að verndun villtra laxastofna. Sjávar-, strand- og ósanet náðust upp, mikilvægar reglugerðarbreytingar náðust og margt fleira mætti nefna. Þá beitti hann sér í baráttunni gegn laxalúsinni og laxeldi í opnum kvíum, baráttu sem enn stendur yfir og ekki sér fyrir endann á. Það sem þó skiptir mestu máli í þessu stóra samhengi er að almennur skilningur hefur aukist á því að ekki gengur til lengdar að ganga stjórnlaust á náttúruna.

Orri var einnig stórtækur veiðileyfasali, formaður Laxárfélagsins sem leigir stóran hluta af Laxá í Aðaldal, var lengi formaður Strengs sem hefur leigt Selá um árabil og bæta má við Fljótaá í Fljótum sem hann leigði í samstarfi við Stangaveiðifélag Siglufjarðar, heimabyggð hans, en Orri var Siglfirðingur í húð og hár.

Orri var framsýnn maður. Síðustu ævidaga sína vann hann af fremsta megni að því að tryggja áframhaldandi friðunarstarf í þágu laxastofna. Það fór ekki framhjá okkur á ritstjórninni, hann hafði reglulega samband með vangaveltur um hvernig mætti gera eitt og annað til að koma verndarsjónarmiðum á framfæri. Honum fannst í því sambandi afar mikilvægt að það yrði áfram haldið úti hlutlausum miðlum um stangveiðina. Hann gaf okkur hugmyndir sem við tökum með okkur inn í framtíðina og okkur er það sönn ánægja að gera það sem í okkar valdi stendur til að leggja verndarstarfi í anda Orra lið.

Orri var vinur okkar og velunnari. Ritstjórnin er þakklát fyrir hans framlag í þágu stangveiðinnar og við vottum fjölskyldu hans okkar innilegustu samúð.