Skammt sunnan við Raufarhöfn, rennur til sjávar á ein lítil og fyrir þá sem ekki þekkja til, lítt veiðileg. Þetta er Deildará á Sléttu eða Melrakkasléttu en menn skyldu ekki láta útlit árinnar þarna við ósinn blekkja sig, því ágæt laxveiði er í ánni. Veiðihús stendur við ósinn, rétt við bæinn Vog en leigutakar árinnar hafa lagfært gamalt og frekar óhrjálegt veiðihúsið, bætt við svefnhýsum og nú er öll aðstaða þarna til fyrirmyndar.

Í „gamla“ húsinu sem nú hefur verið gert upp, er eldunaraðstaða og sameiginlegt rými fyrir veiðimenn, ásamt baðherbergi, kæli og öðru því sem prýðir nútíma veiðihús. Við hliðina á þessu  nýuppgerða „gamla“ veiðihúsi eru svo svefnrýmin. Þar deila tveir veiðimenn herbergi en gott pláss og baðherbergi með sturtu er í í hverju þeirra.

Ágæt veiðiá

Þótt áin sé ekki mikið fyrir augað þarna við ósinn, leynir hún á sér og er með svipaða meðalveiði pr. stöng eins og stærri íslensku laxveiðiárnar. Veiðin sl. sumar var 262 laxar skv. angling.is en 303 laxar árið 2015. Sé litið til meðalveiði síðustu þriggja ára, þá er hún 238 laxar en 189 laxar ef skoðuð eru síðustu fimm ár. Meðalveiðin sl. tíu ár er hins vegar 206 laxar. Til þess að setja þessar tölur í samhengi þá er ágætt að skoða þetta miðað við meðalveiði á stöng  fyrir síðasta ár (2016) yfir tímabilið en þá er veiðin í Deildará nánast sú sama og í Straumfjarðará eða um 87 laxar á meðan Laxá í Aðaldal er með um 67 laxa og Norðurá um 90 laxa.

Deildará rennur eftir heiðarlöndum Melrakkasléttu, þar sem nóg pláss er fyrir hvern veiðimann og hver veiðistaðurinn rekur annan. Mikið fuglalíf er við ána og náttúran er þannig að hún lætur engan ósnortinn.

Við byrjum efst, þar sem rennur úr Ytra-Deildarvatni. Áin á reyndar upptök sín mun sunnar eða í Fremra-Deildarvatni en auk þess er Ölduá hluti af þessu mikla vatnasvæði.

Deildará fremri

Járngirðing við útfall Ytra-Deildarvatns. Mynd Jón Eyfjörð

Efri áin, Deildará fremri, er ágæt silungsveiðiá og þar er hægt að fá bæði bleikju og urriða. Áin sú kemur úr fremra vatninu, liðast niður heiðarlöndin og kemur niður í ytra vatnið í djúpum, lygnum stokki, þar sem ágæta bleikju er að finna. Til að komas í fremri ána er ekið yfir vað sem er við útfall árinnar úr Ytra-Deildarvatni. Þar er járngrindarhlið og óhætt er að aka yfir þarna á sæmilega búnum jeppum. Slóði liggur svo langleiðina upp að eyðibýðinu Grashóli, grófur og sum staðar erfiður yfirferðar en í lagi að aka ef varlega er farið. Hér er er hægt að ganga upp með ánni en það skal haft í huga að áin er lítil og afar viðkvæm. Þarna leynist þó víða fallegur urriði og því rétt að kasta á alla þá staði sem manni finnast vera líklegir. Oft getur fiskurinn leyst bak við steina og undir bökkum. Þegar VoV var þarna á ferðinni sl. sumar gafst best að kasta litlum kúluhausum í jarðarlitum á undan sér. Áin er lygn og hæg en á milli koma kaflar þar sem hún fellur nokkuð bratt í litlum flúðum eða hratt á milli steina. Þegar vatnið hægir á sér aftur, myndast gjarnan litlar breiður eða lón og þar eru bæði urriði og bleikja. Reynsla okkar var sú að bleikjan var neðan til í ánni en urriði meira áberandi ofar.

Efri áin er um 6 km. löng og hvergi er hægt að aka að henni. Því verður að ganga og landið getur verið erfitt yfirferðar þar sem skiptast á mýrar, grasivaxnar þúfur og grýttur mói.

Víðfeðmt vatnasvæði

Þá að neðri ánni sem jafnan er nefnd Deildará. Hún er um 7 km. löng og leyft er að veiða á 3 stangir og einungis á flugu. Allar reglur um sleppingu á laxi er að finna í veiðihúsinu en leigutakar mælast til þess að öllum laxi sé sleppt. S.l. sumar var hins vegar leyft að hirða einn smálax á dag, undir 70 cm. en í lagi er að hirða urriða og bleikju.

Sami aðilinn, Ralph Doppler, var með Deildará á leigu í ríflega 25 ár og nýtti hana mestmegnis sjálfur. Reyndar var eitthvað um að Íslendingar gætu keypt þar leyfi. Veiða-sleppa var svo innleitt sl. sumar með nýjum leigutökum en fram til þess tíma má segja að það hafi nánast heyrt til undantekninga ef laxi var sleppt.

Vatnasvæði árinnar er mjög stórt. Við lítum svo á að áin eigi upptök sín í Fremra-Deildarvatni en á Melrakkasléttu rekur hvert stöðuvatnið annað og oftar en ekki er samgangur milli vatna gegnum litla læki eða ár. Þannig er um vatnasvæði Deildarár. Í fremra vatnið renna lækir úr Hólmavatni og einnig kemur lækur úr Þrætutjörn. Í hana rennur Stórilækur en hann fær einnig vatn úr Veggjalæk.

Ef litið er til Ytra-Deildarvatns þá rennur Ölduá í það en í henni getur verið ágætis silungsveiði. Ölduá kemur úr Öldutjörn og í þá tjörn rennur Héðinsstaðalækur úr Héðinsstaðavatni. Í Héðinsstaðavatn rennur bæjarlækurinn frá eyðibýlinu Grasgeira og það má finna silung í öllum þessum tjörnum. vötnum, sprænum og lækjum.

Fremri-Deildará kemur, eins og áður hefur komið fram, úr Fremra-Deildarvatni. Hún rennur síðan frekar lygn og róleg niður heiðina í Ytra-Deildarvatn en laxveiðin í Deildará er fyrst og fremst í ytri ánni. Efst er járnhlið sem á að koma í veg fyrir að lax gangi alla leið upp í vatnið. Þetta hlið er svo tekið upp á haustin, þannig að fiskur getur gengið upp í vatnið og þar með í fremri ána líka og því er ekkert sem aftrar honum að fara í alla þá læki og sprænur sem nefndar hafa verið  hér á undan.

Deildará – laxveiðisvæðið

Til að komast á efstu staði Deildarár er ekið frá veiðihúsinu í átt að Þórhöfn og beygt við afleggjara til hægri, rétt áður en komið er að bænum Höfða. Þar er farið í gegnum hlið og vegarslóðinn þræddur alla leið upp að vaði því sem áður hefur verið nefnt. Þar er bíllinn skilinn eftir og gengið niður með ánni, í efstu veiðistaðina. Alls eru 17 merktir veiðistaðir í ánni og vaðið sjálft er sá efsti. Ekki er mælt með því að eyða miklum tíma þar, ef rimlahliðið er niðri, en staðurinn fyrir ofan vaðið er nokkuð álitlegur og án efa þess virði að kasta á hann þegar svo ber undir.

Deildará, skammt neðan rimlahliðs. Mynd Jón Eyfjörð

Við göngum hins vegar yfir ána á vaðinu og förum niður með henni að vestan.

Veiðistaður 16, Langhylur, er lygn og djúpur. Áin kemur í lítilli beygju og myndar lítið lón. Ákjósanlegt er að veiða frá vesturlandinu en lax getur legið þar sem áin byrjar að breiða úr sér niður undan nefinu og niður með álnum öllum. Einnig getur verið reynandi að fara yfir á austurbakkann og veiða frá þrengingunni og láta fluguna berast upp að grynningunni neðan við. Litlar flugur, einhenda og flotlína eru ákjósanlegar græjur við Deildará.

Áin beygir svo til vesturs þar sem Langhyl sleppir og litlu neðar er svo staður 15, Langhylur neðri. Hann er lygn og þar verður að strippa fluguna, annars hreyfist hún nánast ekkert, þar sem straumur er mjög hægur.

Kastað á strenginn við veiðistaðinn Stórhól nr. 14. Mynd Heimir Óskarsson

Skammt neðan við Langhyl neðri, eða skömmu eftir að áin beygir aftur til norðurs, er svo 14 eða Stórhóll. Þetta er nokkuð stór staður og þegar VoV var á svæðinu geymdi hann mikið af laxi. Honum svipar til Langhyls, þ.e. áin kemur í gegnum þrengingu og myndar lón eða breiðu, þar sem straumur er mjög lítill, sér í lagi neðst í hylnum. Lax tók nánast strax og flugan lenti við austurbakkann, þar sem rennur inn í lónið. Nokkuð stór lax, á að giska 75 – 80 cm leginn hængur, sem strikaði niður á lygnuna, stökk tvisvar til þrisvar og losaði sig svo við agnarsmáa Monroe´s Killer.

Ef menn eru tveir saman, getur komið til álita að annar fari í bílinn, aki til baka og taki fyrsta slóða til vinstri. Sá slóði liggur norður með hlíðinni og sést greinilega. Hann er á móts við Hólmavatn sem er nokkuð stórt vatn, rétt við slóðann. Þarna er bíllinn skilinn eftir og við tekur u.þ.b. 5 mín. gangur niður að ánni og komið er að henni við veiðistað 11, Sellæk.

Hinn veiðimaðurinn getur haldið för sinni áfram niður með ánni og kastað á þá staði sem líklegir eru á leiðinni en þar eru tveir merktir staðir 13 eða Holtin og 12, Minkahylur. Hvorki sáum við né urðum varir við lax á þessum stöðum en bleikjur fengum við í Minkahyl á rauðan Frances.

Veiðistaður 10, Símahylur er langur og lygn veiðistaður. Mynd Jón Eyfjörð

Sellækur sem er nr. 11 var hins vegar líflegri. Lax var að stökkva í nánast dauðu vatni og stundum voru fleiri en einn uppi í einu. Þarna háttar svo til að áin kemur í gegnum litla þrengingu. Stórir steinar eru í botni þar skammt fyrir neðan og lax lá við þessa steina. Það var lítill HKA-Sunray sem hreyfði við staðnum. Laxar komu á eftir og veltu sér en enginn þeirra tók.

Símahylur nr. 10 er skammt neðan við og þar var svipaða sögu að segja. Laxar að stökkva og velta sér á fluguna en tóku ekki. Það skal tekið fram að veður þessa daga var frekar óhagstætt til veiða. Mikil birta og sól og þar sem vatn í Deildará var frekar lágt og áin afar lygn og straumlítil, var erfitt um vik.

Smálax á grillið. Mynd Jón Eyfjörð

Hylur nr. 9, Vinkilinn er hins vegar stór staður á mælikvarða Deildarár. Þar var líka talsvert af laxi en komið var fram undir kvöld þegar við náðum þangað. Enn og aftur myndar áin lón eða breiðu og mikið sef eða hávaxinn gróður er í botni við bakkana. Áin fellur inn í staðinn á milli lítilla hólma og mikilvægt er að fara varlega þarna, sem og alls staðar við Deildará. Varist að ganga fram á bakka, farið varlega með ánni og þegar lágt er í er nánast öruggt að lax hefur komið auga á veiðimann, áður en hann sér laxinn.

Fyrsti laxinn tók HKA-Sunray alveg við sefið að vestan, rétt þar sem strengurinn var við það að fjara út. Þetta var hængur sem fljótlega hristi fluguna úr sér. Nokkrar fleiri tökur fengum við en ekki tókst okkur að landa neinu. Þá var að prófa að veiða andstreymis. ¼“ rauð Franses keila hnýtt á og í öðru rennsli tók lítill ríflega 55 cm lax fluguna. Þriðji laxinn tók svo nánast í myrkri og núna alveg neðst, þar sem rennur út úr staðnum. Þar eru steinar við vestubakkann, við hornið, þar sem áin beygir í norður. Aftur var það rauða Frances keilan sem fiskurinn gein við og við lönduðum þarna ríflega 70 cm. hæng sem varð frelsinu feginn þegar honum var sleppt aftur.

Veiðistaður 9, Vinkillinn er nokkuð stór á mælikvarða Deildarár. Mynd Jón Eyfjörð

Frá Vinklinum er stutt að ganga að veiðistað  8  en talsvert lengra er í veiðistað 7. Ef menn eru tveir saman getur annar veiðimaðurinn rölt aftur í bílinn og ekið niður á þjóðveg. Ekið er til baka í átt að veiðihúsinu. Skömmu áður en þangað er komið liggur slóði til vinstri, upp með ánni. Þar er ekið í gegn um hlið upp holtin og slóðinn endar á mel, ofan til við veiðistað 6, Illukeldu. Það er svolítill spölur niður að ánni en undan brekku að fara. Þegar VoV var á svæðinu var bíllinn skilinn eftir þarna á melnum og veiðimaðurinn sem kom ofanað tók hann og ók niður að girðingu sem þarna er, skammt fyrir ofan veiðistaði 2. Nafn þess staðar vitum við ekki og neðsti merkti veiðistaðurinn er svo 1, Gunnlaugshylur.

Við höldum niður að veiðistað 5, Sprekaneshyl. Hann svipar til annarra veiðistaða árinnar, þ.e. lítill strengur rennur í lón og þar sem strengurinn kemur inn í lónið og í dýpinu sem þessi litli strengur hefur búið til, liggur lax. Hægt er að veiða strenginn alveg frá innfallinu í lónið, nánast alla leið norður úr því. Í beygjunni, við nefið og niður undan því, lágu tveir laxar í makindum. Þeir hreyfðu sig ekki, þrátt fyrir ýmsar tilraunir og nokkrar flugur.

Veiðistaður 5, Sprekaneshylur með betri stöðum í ánni neðanverðri. Mynd Jón Eyfjörð

Ef gengið er norður með ánni, er næst komið að öðru lóni sem svipar talsvert til hinna. Þetta er veiðistaður 4, Lækir. Ágætt er að kasta á hann smáflugum en lítill sem enginn straumur er hér. Næstur er svo 3 eða Þristurinn. Þar var dálítið af laxi en ekki vildi hann taka í sólskininu og logninu.

Fallegar sjóbleikjur. Mynd Jón Eyfjörð

Fyrir neðan Þristinn eru svo tveir staðir, eins og áður hefur komið fram en þarna lekur áin áfram í stokki á milli grasbakka, beygir frá austri til norðurs og fellur svo loks fram af á nokkrum stöllum.

Þá er ónefndur ósinn en þar er hægt að fá bleikju á sæmilegum degi.

Deildará er vatnslítil á. Hún er afar viðkvæm en getur geymt talsvert af laxi. Hennar helstu einkenni eru lítill og hægur straumur, lón eða breiður og grýtt landið sem hún liðast í gegnum.

Það er gaman að veiða í Deildará, hún er öðruvísi og krefjandi.