
Það má alveg færa það til bókar núna, að laxveiðin hefur farið vel af stað. Hvað verður þegar allt er stólað á smærri laxinn verður að koma í ljós, en veiðimenn eru að upplagi bjartsýnn hópur.
Fyrstar byrjuðu Þjórsá og Norðurá og ástandið var krefjandi. Samt veiddist vel. Í Urriðafossi í Þjórsá voru komnir vel yfir 100 laxar eftir fyrstu átta daganna. Sem sýnir hversu sumir dagarnir voru góðir, því dagur 2 gaf t.d. aðeins einn lax. Það eru sem sagt álitlegar göngur stórlaxa, meira að segja Sogið er búið að skila laxi þó að laxatími árinnar sé ekki runninn upp. Alfreð Elíasson var á bleikjuveiðum í Ásgarði, andstreymisveiddi púpu eins og gengur hvað best í bleikjunni. En aðferðin virkar líka á lax og það sem Alfreð taldi í fyrstu vera stærstu bleikju sem hann hefði sett í á ævinni, reyndist vera 85 sentimetra nýgengin hrygna.

Meira að segja Blanda tók upp á því í fyrsta skipti síðan 2022 að gefa laxa í opnun. Blanda hefur verið í vandræðum, minnt um nokkuð á vandræði Laxár í Aðaldal sem stóðu í þó nokkur ár. Laxá hefur hins vegar verið að taka aftur við sér og vonandi er þessi byrjun í Blöndu vísbending á betri tíma.
Nú síðast var Þverá í Borgarfirði opnuð og frábærir dagar þar að baki, 26 landaðir laxar á 2,5 dögum. „Við horfum spennt á opnun Kjarrár þann 15.6 nú þegar við erum að horfa upp ásterkustu göngur stórlaxa síðan 2016. Laxinn er lítið að stoppa í Þverá, aðstæður eru það góðar að hann heldur áfram upp í Kjarrá,“ eru orð frá Ingólfi Ásgeirssyni, sem er í hópi leigutaka árinnar.
Á næstu dögum opna þær síðan hver af annarri. Enn er gott vatn, en lítið eftir af snjó. Hvernig vatnsbúskapur verður er ómögulegt að segja til um núna. En við vonum það besta.
            
		








