Lax í Ytri Rangá fær merki í bakuggann. Myndin er fengin frá vefsíðu West Ranga.

Umsjónarmenn og leigutakar Ytri Rangár hafa sett á stofn merkingarprógram í því skini að fræðast betur um laxveiði í ánni, göngur og dreifingu laxa. Eru þeir vongóðir að stangaveiðimenn taki virkan þátt í verkefninu með því að sleppa veiddum löxum með merkjum í bakugganum.

Í frétt sem birtist á FB síðu West Ranga segir að ofangreindir aðilar hafi mikinn áhuga á því að finna út hversu hátt hlutfall af laxi gengur í ána öðru sinni, hversu hátt hlutfall laxa veiðist öðru sinni eða jafnvel oftar á sama sumrinu og jafnframt verði gerlegt að kortleggja laxagöngur í ána. Segjast þeir vona að veiðimenn taki þátt þannig að hægt verði að merkja fjölda laxa á komandi dögum og vikum.

Því má við bæta, að veiðin hefur verið með ágætum síðustu daga og komið hafa allt að 40 laxa dagar.