Fljótaá
Hér er sá stóri, 106 cm.

Fljótaá er ein af síðsumarsánum og hefur aukinheldur verið í dálítilli lægð síðustu sumur þó að bleikjuveiðin hafi ávalt staðið fyrir sínu og oftar en ekki vel það. En nú er farið að veiðast og nú í vikubyrjun var þar dreginn m.a. 106 cm hængur sem gæti verið metlax úr ánni.

“Það kom einn 106 cm á land á mánudaginn” sagði Vigfús Orrason, leigutaki, eða Vivvi eins og hann er betur þekktur. “Flest ár veiðast laxar í Fljótaá um 100 cm en ég hef spurt kunnugri menn sem ekki muna eftir svona stórum laxi hér. Eflaust hafa þeir veiðst hér einhvern tímann en ekki síðan ég kom hingað fyrst.”

Fljótaá er búin að vera erfið viðureignar í sumar, köld og vatnsmikil og oft á yfirfalli. Lax gekk seinna í ánna en í margar aðrar en nú er hann farinn að veiðast og skilyrði farin að batna. Bleikjuveiðin hefur hins vegar verið frábær eins og ævinlega þótt erfið skilyrði hamli henni líka.

Fljótaá
Glæsileg tveggja ára hrygna úr Fljótaá.

„Síðastliðna viku var þar við veiðar Ilya Sherbovich sem á og rekur hina víðfrægu Ponoi á Kólaskaga. Hann dvaldi ásamt fjölskyldu sinni á hótelinu að Deplum og tók því rólega við ána. Nokkrum löxum var þó landað, þar með talið þeim stóra sem veiddist í Stekkjarhyl og tók hálftommu Collie Dog túbu – einföldustu flugu í heimi! Gulli Stebbi, leiðsögumaður, sá til þess að mælingar voru hárnákvæmar. Ég er spenntur að sjá hve mikið af laxi er komið í ánna,” sagði Vivvi. “Það hefur verið mjög erfitt að átta sig á því hingað til. Flestir laxarnir hafa verið vænir tveggja ára laxar – svolítil vorstemmning ennþá – en ef við fáum sæmilegar smálaxagöngur ætti það að sýna sig fljótlega. Næsta vika verður áhugaverð,“ bætti Vivvi við.

Myndirnar eru af Ilya með drekann, tekin af Gulla Stebba og syni hans með nýgengna tveggja ára hrygnu úr Tanngarði, tekin af Jóni Heimi.