Fyrir síðustu jól voru óvenjumargar bækur gefnar út með tilliti til stangaveiðimanna. Okkur vannst ekki tími til að fjalla um þá fjórðu sem hér fær loks rými með hinu þekkta orðatiltæki: Síðast en ekki síst.
Við greindum frá minningum hestasveina fyrri tíma við Kjarrá, veiðisögur af veiðikónginum Árna Baldurssynu, sem eru margar þjóðsagnakenndar, og loks frá bók Jörundar Guðmundssonar og félaga hans um urriðasvæðin í Laxá í Suður Þingeyjarsýslu. Veiðistaðalýsingar þar, veiðisögur og sagan öll, sem er litrík og spennandi. Allar þessar bækur eru höfundum og umsjónarmönnum til mikils sóma og hvalreki fyrir stangaveiðimenn ekki hvað síst þar sem þær, bækurnar, eru jafn ólíkar og þær eru margar. En ein flaug undir radarinn, nógu lengi til að tími gafs ekki til að segja frá henni fyrir hátíðir. Það er einmitt bókin Laxá í Aðaldal – Drottning Norðursins, með undirtextanum: 80 ára saga Laxárfélagsins. Það er hinn aldni höfðingi Steinar J. Lúðvíksson sem hefur tekið saman þessa miklu og merku bók. Í henni má glöggt lesa að „saga félags“ getur verið annað og meira en upptalning á stjórn og mannskap.

80 ár er enginn smá tími hjá félagsskap og hjá Laxárfélaginu snérist dæmið allan tíman um utanumhald laxveiða í Laxá í Aðaldal. Ein allra frægasta laxveiðiá landsins og að fjölmargra mati sú fegursta. Þekkt fyrir stórlaxa og krefjandi aðstæður. Bók Steinars er annað og meira en 80 ára saga félags. Hún er er aldarspegill, ef svo mætti að orði komast, um þær vendingar og breytingar sem orðið hafa á laxveiðikúltúr landsmanna. Sagan er löng og merk og á þeirri vegferð sveiflast t.d. veiðin í ánni geigvænlega. Er allt frá því að vera með hæstu tölum á landsvísu og niður í svo lágar tölur að talað var um að áin væri ónýt með öllu. En síðustu ár hafa verið batamerki á nýjan leik og þá er bara að vona það besta með framhaldið.
Á kápu bókarinnar stendur eftirfarandi: -Laxá í Aðaldal hefur verið kölluð drottning norðursins. Hún er rómuð fyrir fegurð og fisksæld og er ein af perlum íslenskrar náttúru. Hér rekur Steinar J.Lúðvíksson sögu veiða í ánni, segir frá frægum veiðimönnum og minna þekktum, og deilum um nýtingu hennar. Þá fjallar hann um Laxárfélagið, upphaf þess, starfsemi og endalok, en félagið hafði meginhluta árinnar á leigu í áttatíu ár. Þannig er saga árinnar og félagsins samofin.“
Þá er bókin ríkulega myndskreytt eins og óþarfi ætti að þurfa að taka fram. Það er merkilegt að bók þessi hafi komið út á sama tíma og bók Jörundar Guðmundssonar og félaga, sem fjallar um svæðin ofan Brúar. Sögu þeirra veiða og fleira. Þar með var þessari mögnuðu veiðiá, Laxá í Suður Þingeyjarsýslu gerð heildarskil úr tveimur áttum samtímis. En slíkt er umfang þessa vatnsfalls að það ber þrjú nöfn á leið sinni frá Mývatni og til sjávar: Laxá í Mývatnssveit, Laxá í Laxárdal og Laxá í Aðaldal. Kalla má báðar þessar bækur skyldueign áhugamanna um stangaveiði á Íslandi, þ.e.a.s. þeirra sem láta söguna sig varða, ekki aðeins veiðiskapinn.