Ingólfur Davíð Sigurðsson með glæsilega hrygnu úr Húsármótum í Jöklu. Myndin er fengin af FB síðu Strengja.

Jökla sló gamla metið sitt í gær þegar fjórir laxar veiddust í hliðarám hennar, en sem kunnugt er hefur hún sjálf verið á yfirfalli síðustu vikur. Og ekki nóg með það, heldur stefnir nú allt í að yfirfallið fari af og hægt verði að veiða aftur í Jöklu sjálfri blátærri síðustu vikurnar í september.

Þröstur Elliðason eigandi Strengja, leigutaka Jöklu, fjallaði um þetta á FB síðu Strengja og sagði m.a.: „…og þar með var vatnasvæðið komið í 816 laxa en mest hafði veiðin komist í 815 laxa sumarið 2015 þegar ekkert yfirfall kom þá á veiðitímanum. Reyndar stefnir í að yfirfallið fari af á næstu dögum upp í Kárahnjúkastíflu úr Hálslóni og þá verður öll Jökla veiðanleg á ný. Síðast gerðist það haustið 2018 og þá komu á land hátt í 100 laxar í síðustu viku september og ætti það sama að vera upp á teningnum núna.“