Sem kunnugt er þótti Eyjafjarðará um langt árabil vera besta sjóbleikjuá landsins. Henni hrakaði en einhverskonar jafnvægi hefur verið náð. Áin var og, og er, þekkt fyrir risavaxnar bleikjur og þær fyrstu eru gengnar.
FB síða aðstandenda Eyjafjarðarár eru með færslu í dag og þar segir að vissulega séu fáar bleikjur mættar á svokallað svæði 5, sem er efsta svæðið þar sem hrygningarbleikjurnar eru alls ráðandi. En að þær sem séu komnar séu flestar í „yfirstærð“ eins og þar stendur og því til staðfestingar eru birtar myndir af tveimur sem veiddust ú fyrir skemmstu, báðar lengdarmældar 72 cm. Þeim var báðum sleppt eins og lög gera ráð fyrir í Eyjafjarðará. Tröll af þessum toga eru árviss í aflanum í ánni.










