Fer að bresta á!

Fallegur Hofsárlax.

Laxveiðin er að bresta á, fyrsta svæðið opnar á fimmtudaginn 1.júní. Margir eru spenntir að sjá hvernig vertíðin þróast, en ekki hefur hún byrjað vel á Bretlandseyjum, ekki að það séu einhver tengsl þar að finna. En lélegt er það í UK, hvernig verður það hér?

Við vorum með hugleiðingu/vangaveltu hér á VoV á dögunum þar sem leiddar voru líkur að því að lax væri genginn í Hvítá í Borgarfirði og líklega Þverá/Kjarrá líka, svona miðað við reynslu mann fyrr á árum er netaveiðin var við lýði. Þá hefur Laxá í Kjós löngum þótt skemmtileg á til að fylgjast með þeim fyrstu koma og dagsetningin 23-24.mai oft verið fastapunktur fyrstu laxanna. Þetta árið hefur verið illt að fylgjast með í Laxá, líkt og öðrum ám vegna vatnavaxta, gruggs, rok og rigningu. En lok þegar lygndi smá og sólin leit við í gær voru menn fljótir að koma auga á þá nokkra. Og kom engum á óvart.

En Laxá opnar ekki nærri strax, í kringum 20.6 hefur verið hennar tími. Var fyrr á árum áður en fært aftur til að leyfa fiski að skila sér í einhverju magni áður en farið væri að berja á honum. Það er Þjórsá sem opnar fyrst af öllum, næst komandi fimmtudag 1.júní. Þar er ugglaust kominn lax og opnanir þar verið fjörugar síðustu árin. Aðal fókusinn er á Urriðafoss, en fleiri svæði í ánni ona einnig og þau hafa gefið lax líka. Bara verið frekar lítið stunduð.

Ef við rennum aðeins yfir slangur af þekktum ám sem opna á næstunni þá opnar Norðurá 4.6, Blanda 5.6, Þverá 8.6, Kjarrá 9.6, Miðfjarðará 15.6, Grímsá 17.6, Víðidalsá 18.6, Langá 19.6, Vatnsdalsá, Laxá í Aðaldal og Elliðaár 20.6, einnig eru Rangárnar að opna um það leyti. Laxá í Dölum 24.6. Þá opna Selá og Hofsá í kringum 24-25.6. Auðvitað eru þær miklu fleiri, en þessi listun gefur vissa hugmynd um stígandann. Síðustu árnar, s.s. Jökla, opna svo um mánaðamót júní/júlí, utan Vatnsár sem opnar ekki fyrr en að áliðnum júlí.