Ástæða til að hafa áhyggjur af Þingvallaurriðanum?

Þingvallavatn
Þingvallavatn. Mynd Heimir Óskarsson.

Enn á ný er komin í hámæli kenning um að urriðastofn Þingvallavatns sé á vonarvöl. Hann sé búinn að éta alla murtu í vatninu og sé langt kominn með smærri bleikjuna. Til marks um þetta séu tíðir „slápar“ í aflanum í vor og sumarbyrjun.

Þessar kenningar komust í hámæli nú um helgina þegar hræ af risaurriða fannst fyrir landi Þjóðgarðsins. Var sá höfðingi afar horaður. Þá herma fregnir að minna sé um urriða í yfirstærð í vor og stærstu fiskarnir oftast um eða rétt yfir 70 cm. Og þeir séu margir þunnir í roðinu. Þessi umræða er ekki ný af nálinni. Fyrir 2-3 árum kom fram í spjalli VoV við Cezary Fijalkovski, mann sem veitt hefur urriðann í Þingvallavatni um árabil, að urriðinn væri að éta allt frá sér. Voru þá, sem nú, „slápar“ tíðir í aflanum. Þá risu menn upp, eins og nú, og gáfu lítið fyrir kenninguna.

Þegar fréttist af fallna risanum í Þjóðgarðinum, póstaði Jóhannes Sturlaugsson fiskifræðingur texta á heimasíðu fyrirtækis síns, Laxfiskar, en Jóhannes hefur rannsakað urriðann í vatninu í 20 ár. Sagði hann, að af myndum að dæma, væri hér komið klassískt dæmi um ellidauða. Það kæmi fyrir alla urriða sem tækju ekki agn eða væri sleppt aftur af veiðimönnum. Þeir gætu að vísu orðið fjörgamlir og hrygnt oft. En fyrir rest tækju árin sinn toll.

Urriðastofninn í vatninu hefur verið á mikilli uppleið um nokkurt árabil og hefur seiðasleppingum, búsvæðabótum og ekki síst „veiða-sleppa“ verið þakkað fyrir það. Nú er það mjög útbreidd kenning að þessi stóraukni fjöldi stórurriða í vatninu hafi rústað tegundajafnvægi vatnsins. Jón Kristjánsson fiskifræðingur hefur tjáð sig á spjallþræði um málið á FB og sagst hafa varað Jóhannes við því að standa fyrir „veiða-sleppa“ í vatninu og afleiðingarnar af því mætti sjá í seinni tíð og í vor.

Hvað sem því líður, þá var það fundið út með rannsóknum í vatninu fyrir nokkrum árum að það sé alltaf nokkur hluti kynþroska urriða í vatninu sem sleppa úr hrygningu annað hvert haust og einbeita sér að því að éta. Á vorin komi þeir síðan fram í afla sem bjartir fiskar og feitir. Þeir sem hrygndu komi hins vegar fram sem dökkir fiskar og horaðir. Líkt og menn þekkja til sjóbirtingsins, sumir vorfiskar eru bjartir og hnausþykkir á meðan aðrir eru dekkri og þunnir.

Sumir tala því fyrir því að algert V-Sl verði aflagt að mönnum leyft að hirða eitthvað af fiski. En þá ber að líta til þess að aðrar rannsóknir á þessum fræga urriðastofni sýni að fiskar séu mjög mengaðir af kvikasilfri og þegar þeir eru komnir yfir 4-5 pund, beinlínis óhollir til neyslu. Eða því var haldið fram á sínum tíma. En hvað sem þessum vangaveltum líður þá er rétt að fylgst sé með gangi bleikjustofna vatnsins. Bleikja hefur verið helsta æti þessara hrikalegu urriða. En bleikjunni hefur fækkað og murtustofninn hruninn. En bleikju hefur líka fækkað miklu víðar og ekki alls staðar hægt að kenna um afráni urriða.