
Eðlilega hefur athyglin í veiðiskapnum síðustu vikur verið á sjóbirtingi og staðbundnum silungi, en það styttist í laxinn, styttist verulega, og leiða má líkum að því að þeir fyrstu séu farnir að ganga í nokkrar ár.
Nokkur svæði hafa verið sterkari með mjög snemmgenga stofna en önnur. Þjórsá, Laxá í Kjós og Borgarfjarðarárnar Hvítá, Norðurá og Þverá/Kjarrá koma þar strax upp í hugann.
Hvað Þjórsá varðar, þá er jafnan helst horft til Urriðafoss. Áður en að Stefán og Harpa hjá IO veiðileyfum tóku við leigunni á svæðinu þá voru brögð að því að þar veiddust nýgengnir laxa eftir miðjan mai. Veiðimaður einn sem við hjá VoV þekkjum vel til, sagði okkur að hann hefði stundað það nokkur ár að fá leyfi til að skreppa í Urriðafossinn um og upp úr 20.mai. Hann sagði okkur að það hefði varla brugðist að hann hefði sett þar í laxa. Og það voru ekki hoplaxar. Og allir þekkja það síðan, að opnanir í Urriðafossi, um mánaðamót mai/júní þar til í fyrra það var fært aftur um fáeina daga, hafa verið þær æsilegustu. Þar má sem sagt búast við því að fyrstu laxarnir séu mættir eða rétt ókomnir.
Snemmgengir laxar eru að ölli jöfnu svokallaðir tveggja vetra laxar og hvort sem mikið var af þeim eða minna frá ári til árs, þá veiddist alltaf í netin í Ferjukoti og á Hvítárvöllum í Hvítá í Borgarfirði, strax og þau voru lögð 20.mai ár hvert þangað til að samið var um uppkaup þeirra og netaveiði leið undir lok á svæðinu. Samhliða hafa alltaf af og til borist fregnir um að menn að sækjast eftir silungi seinni hluta mai hafi lent í að setja í laxa. Má nefna t.d. Straumana og einnig heyrðum við af veiðimanni sem veiddi tvo nýgengna 11 punda laxa í Brennunni 11.mai. Sá var þá leigutaki að svæðinu og var að dytta að veiðihúsinu og datt í hug að athuga með sjóbirting þegar styttist í kvöldmat. Og þekkt að þegar Þverá/Kjarrá opnar, eldsnemma í júní, þá eru menn að setja í laxa upp í efstu veiðistöðum Kjarrár, sem eru langleiðina inni að Tvídægru. Og ekki alltaf lúsugir á þeim slóðum svo snemma.
Laxá í Kjós kemur árvisst inn með fregnir af fyrstu vorlöxunum. Oftast um þetta leyti, en í einstaka tilvikum fyrr. Oftast í Laxfossi eða Kvíslafossi, en einnig víðar, m.a. einnig í Bugðu, sem rennur í ána úr Meðalfdellsvatni.
Við ætlum að loka þessu með því að geta þess að við vitum til þess að veiðimaður sem ók niður með Ytri Rangá að vestanverðu fyrir fáum dögum, stöðvaði við Djúpós og sá von bráðar stóran skvett. Hvort að þar var nýrenningur á ferð, hoplax eða sjóbirtingur á niðurleið, skal ós agt látið, en hjartað sló örar hjá vitninu við þessa sjón.
Hvers er að vænta er svo annað mál þegar horft er á stóra kortið. Síðustu sumur hafa ekki verið meðal þeirra bestu, en þó dálítið af smálaxi sem að gefur alltaf fyrirheit um stóra laxinn árið eftir. Í þessu tilviki nú í sumar. Spurning þá hvað skilar sér af smálaxi á móti. Eitt sem má þó líklega bóka, er að þetta verður að öllum líkindum hnúðlaxasumar. Og kannski það mesta til þessa ef að marka má þróunina í löndum í kring um okkur. Jú og hér heima líka.