Skemmtileg er forsaga hinnar þekktu og gjöfulu flugu Peter Ross. Enn í dag nota margir Peter Ross í silunginn og einkannlega er púpuafbrigði af henni veiðisælt í andstreymisveiði. En fleira er hægt að gera með hana. Hér kemur gamla greinin okkar endurbætt.

Það skal tekið fram að við birtum þessa grein í Veiðislóð fyrir nokkrum árum, á meðan Vsl var á frísvæði, sem sagt áður en hún var sett sem áskriftarsvæði. Þetta er þó ekki nákvæmlega sami textinn, hann hefur verið útfærður betur, uppfærður og við hann bætt nokkrum skemmtilegum punktum.

Hér er um stórmerkilega flugu að ræða. Þetta er ein þekktasta silungafluga allra tíma og menn hafa líka veitt lax á hana. Hún er þó lítið notuð í laxveiði. Einn þekkjum við þó sem notar hana mikið, um land allt, í gömlu orgínal útgáfunni. Veiðir afar vel á hana, sérstaklega í mjög smáum númerum í litlu vatni og eins með því að strippa hana að kvöldlagi þegar ljósaskiptin koma með töfrastundina. Reyndar eru sumir þeirrar skoðunar að það skipti litlu máli hvaða fluga þá sé strippuð, bara að hún sé nógu smá og hreyfist nógu hratt!. Ef hún væri notuð reglulega sem laxafluga þá væri hún eflaust hátt skrifuð, enda hefur hún alla burði til að vera slík veiðikló.

Peter Ross
Peter Ross

En sum sé, þá er hún fyrst og fremst silungafluga og með stóraukningu í notkun á kúlupúpum hin seinni ár, hefur hún einnig skotið upp kollinum sem afburðafluga af því tagi. Litasamsetningin minnir á aðrar flugur, eins algengt og það nú er. Silfur, rautt. Sumum þykir að hún minni á sjóbleikjufluguna öflugu Bleika og bláa. Það er nú munur á þeim, en litirnir sem mest ber á eru að einhverju leyti hinir sömu. Í það minnsta fannst sjóbleikjunni það í norðanheiðaá einni fyrir nokkrum árum. Þá var einn góður vinur VoV að veiðum og það var að ganga vel hjá honum. Bleikjan fór að taka þegar út fór Bleik og blá í púpulíki. En hann átti aðeins eina slíka og þegar búið var að landa nokkrum bleikjum varð það slys að vindhnútur sem læðst hafði á línuna hafði fluguna með sér þegar væn bleikja hrifsaði í. Nú voru góð ráð dýr. Fyrst enga aðra eins var að finna var að sjálfsögðu Heimasæta sett undir. En ekkert gekk. Þá Phesant tail þó hún sé gerólík. En ekkert gekk. Gerðust nú góð ráð rándýr. Hann opnaði annað box í von uminnblástur. Í því voru eldri flugur og þarna í einu horninu kúrðu 3 eða 4 gamlar Peter Ross. Hann tók eina og lokaði augunum um leið og hann reif af henni væng og skegg. Það dugði, bleikjan var þarna enn og í lok vaktar var okkar maður meira en sáttur með árangurinn.

Peter Ross
Peter Ross.

Peter Ross er gömul fluga og á sér skemmtilega forsögu. Þá forsögu rakst ritstjóri á í bókinni  “Lífsgleði á tréfæti”, eftir Stefán heitinn Jónsson fréttamann. Sú bók er afburðagóð lesning fyrir alla veiðimenn hvort heldur er skot- eða stangaveiðimenn. Hann fjallar m.a. um uppruna Peters Ross, þar stendur:

-Í þessum orðum skrifuðum rifjast upp fyrir mér rétt einu sinni  sagan um skírdagspredikun skoska prestsins, séra Peters gamla Ross, sem lenti í því fyrir 150 árum (skrifað 1998-99)  á miðvikudaginn í dymbilvikunni að verða uppiskroppa með purpuralitað selshár þegar hann var að hnýta uppáhaldsfluguna sína, Teal and Red. Af þeim sökum varð rauði bolurinn undir gráyrjótta urtandarvængnum allt of stuttur og ekki nema svo sem 1/3 af lengd silfraða leggsins. En við þessu var bara ekkert að gera, og þegar hann reyndi svo þessa vanbúnu flugu um kvöldið, þá tóku silungarnir hana svo grimmt að hann hafði bara aldrei vitað annað eins. Það voru nú meiri ósköpin.

Í predikuninni daginn eftir lagði hann svo út af ritningargreininni þar sem segir frá því þegar Jesús hitti Pétur og áhöfn hans við netabætinguna hjá Genesaretvatni og bað þá að hætta nú að veiða fiska og koma heldur með sér að veiða menn. “Og þeir gerðu það og fylgdu honum.Hóseanna!” sagði séra Peter Ross. Svo kom löng þögn innblásinnar undrunar sem lauk með andköfum, og hann bætti við: “En þeir voru reyndar ekki fluguveiðimenn!”

Þetta er náttúrulega með alskemmtilegustu forsögum af nokkurri flugu, þó eiga þær sér margar skemmtilegt upphaf og feril. Sá er þetta ritar hefur lítið haft af Peter Ross að segja.

Peter Ross
Peter Ross.

Tók einu sinni þó tæplega 4 punda urriða á hana í snarbrjáluðu veðri frá engjunum gegnt Elliðavatnsbænum. Mörg ár síðan. Veðurhamurinn var slíkur að það var enginn annar nógu vitlaus til að vera úti við í veiðiskap. Og rokið beint í fangið. Þessi veiði var mér líka minnistæð fyrir þær sakir að einhverju sinni var bíl ekið frá Elliðavatnsbænum og var skyndilega stöðvaður. Út úr honum vatt sér maður sem öskraði undan vindi svo undir tók í fjöllunum, “Er einhver veiððððiiiiiii……”  Endurtók síðan öskrið enn hærra. Á móti snarvitlausu slagveðrinu datt mér ekki til hugar að reyna að öskra á móti og maðurinn hristi hausinn, gafst þá upp, stökk inn í bíl og ók burt, eflaust veltandi fyrir sér hvaða helv… fýlupoki þetta væri.

Þá var ég eitt sinn, einnig fyrir mörgum árum, í Elliðaánum og félagi minn og ég gátum ekki slitið okkur frá laxatorfunni í Kistunum. Laxar stukku viðstöðulaust og við reyndum hverja fluguna af annarri, en þetta var bara sýning. Loks var félagi minn kominn með lúið eintak af Peter Ross, tvíkrækju númer 12 sem þótti smátt á þeim árum. Skyndilega lyfti sér lax nokkuð á skjön við hástökk allra hinna. Þetta var fyrir ofan félagann og hreyfing laxins minnti meira á uppítöku silungs heldur en laxastökk eða þegar þeir kafa upp með haus, bak og sporð. Félagi minn var í miðju bakkasti, en vatt uppá sig og sendi fluguna upp eftir, sum sé andstreymis, Peter Ross paddan lenti beinlínis í svelgnum eftir fiskinn, sem enn var stór á yfirborðinu, og var soginn ofan í kok á 8 punda hæng í sömu andrá. Eftir á að hyggja var þessi lax nokkuð sérkennilegur, því hann var mjög þéttdílóttur og meira að segja nokkuð sjóbirtingslegur. Þetta var þó lax við nákvæma skoðun, engin spurning um það.