Silungsveiði hófst víða í morgun. Fókusinn mest á sjóbirtingsám á Suðurlandi, en einnig víðar, t.d. í Leirá í Leirársveit. Það gekk á ýmsu í morgun, sums staðar erfitt vegna jakaburðar sem er í algleymingi eftir að hlýna tók. Annars staðar gekk nokkuð vel.


Við heyrðum í Jóni Hrafni Karlssyni sem opnaði Eldvatn ásamt fleirum. Um gang mála sagði hann, „Heyrðu 2 birtingar, bleikja og urriði á land í morgun. Nóg af fiski um allt en tekur illa. Sól og logn í morgun en hann gaf sig aðeins þegar byrjaði að gára. Stærst var 80 cm hrygna.“
Við fáum fleiri fréttir er líður daginn og í kvöld, en höfum frétt af líflegum morgni í Leirá þar sem á annan tug birtinga var landað, allt að 80 cm. Í Tungufljóti var jakaburður og mikill vatnselgur. Skilyrði erfið og aflinn eftir því.










